„Hárrétt ákvörðun“ að blása hátíðina af

Bessi Theodorsson, skipuleggjandi hátíðarinnar Flúðir telur það hafa verið hárrétt …
Bessi Theodorsson, skipuleggjandi hátíðarinnar Flúðir telur það hafa verið hárrétt ákvörðun að slaufa hátíðinni í ár. hann kveðst ekki öfunda neinn sem sé að skipuleggja stórar hátíðir á næstunni. Samsett ljósmynd: Eva Björk Ægisdóttir/Facebook

„Maður var skíthræddur og vonaði að maður væri að gera rétt, en miðað við viðbrögðin þá held ég að þetta hafi verið hárrétt ákvörðun. En ég öfunda ekki neinn sem er að undirbúa stóra viðburði og skil vini mína í Vestmannaeyjum mjög vel,“ segir Bessi Theódórsson, skipuleggjandi hátíðarinnar Flúðir, í samtali við Ísland vaknar á K100. Hátíðinni var aflýst og er hún líklega sú fyrsta sem blásin er af í kjölfar fjölgunar smita.

Fleiri útihátíðir eru í hættu vegna mikillar útbreiðslu veirunnar en sóttvarnalæknir tilkynnti á fundi í morgun að hann hygðist leggja til aðgerðir til að reyna að hamla frekari útbreiðslu. Skipuleggjendur stórra hátíða um verslunarmannahelgina berjast nú við að takmarka skaðann og bíða án vafa í ofvæni frekari frétta.

Bessi segir hátíðina á Flúðum vera af öðrum toga en margar aðrar hátíðir þar sem hún er ekki hagnaðardrifin og ekki er selt inn á hátíðina og því hvorki hægt að vita fyrirfram hversu margir hugðust taka þátt í henni né reyna að hamla fjöldanum.

„Þetta á að vera hátíð fyrir fjölskyldur þar sem þær geta komið án þess að þurfa að rífa veskið upp alveg við hvert fótmál,“ sagði hann.

Hlustaðu á allt viðtalið við Bessa í spilaranum hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir