Dæmir aldrei og býður aldrei ráð

Al Nixon hefur haft áhrif á líf margra.
Al Nixon hefur haft áhrif á líf margra. Skjáskot úr myndskeiði

Flestir kannast eflaust við að þurfa að létta á sér við og við og það er mikilvægt að geta rætt vandamál sín upphátt. Þó að þau leysist kannski ekki þá geta þau virst yfirstíganlegri við það eitt að ræða þau. Ekki má vanmeta gott trúnó og það getur verið ótrúlega frelsandi að ræða málin við einhvern sem maður þekkir ekki vel.

Maður að nafni Al Nixon er búsettur í St. Petersburg í Flórída og undanfarin ár hefur hann setið við sama bekk og boðið fólki að setjast hjá sér og spjalla, létta á sér og jafnvel lánað því öxl til að gráta á.

Fékk sjálfur aðstoð

Nixon átti sjálfur erfitt tímabil í lífi sínu og settist á þennan sama bekk nokkrum sinnum til þess að reyna að tæma hugann aðeins. Ókunnug kona varð vör við hann, gekk að honum og sagðist sjá hann þarna á hverjum degi og vildi láta hann vita að allt yrði í lagi. 

Hann segist í kjölfarið hafa áttað sig á því hversu mikill máttur er fólginn í því að brosa til fólks, staldra við og spjalla við það. Nú hefur hann talað við fjöldann allan af fólki og er aðallega í því hlutverki að hlusta.

Hann segist aldrei dæma það og býður aldrei upp á ráð nema fólk biðji hann sérstaklega um það. Hann vill fyrst og fremst að fólki líði eins og einhver sé að hlusta á það og hefur þetta ofurkrúttlega framtak vakið mikla athygli í samfélagi hans. Spjallið við Nixon hefur reynst ótal mörgum vel og veitir enn fleirum hlýju í hjartað. Svo fallegt! 

Frétt af Upworthy.

mbl.is

#taktubetrimyndir