„Á ég að hætta þessu og vera bara heima?“

Helgi Björns er alveg jafn gáttaður og flestir aðrir yfir …
Helgi Björns er alveg jafn gáttaður og flestir aðrir yfir nýjustu smit-fréttum. Mummi Lú

Um vika er síðan tónlistarmaðurinn Helgi Björns tilkynnti að hann hygðist vera með streymi um verslunarmannahelgina en nánast beint í kjölfarið fór innanlandssmitum að fjölga og því spurning hvort fleiri muni fylgjast með streymi Helga en von var á um þessa stærstu útileguhelgi ársins, en ljóst er að margar útihátíðir eru í hættu vegna smitanna.

Helgi segir þó ákvörðunina um að bjóða upp á streymi um „versló“ hafa verið algjöra tilviljun.

„Ég bara trúi þessu ekki. Á ég að hætta þessu og vera bara heima?“ sagði Helgi í samtali við morgunþáttinn Ísland vaknar í morgun en margir hafa gantast með að Helgi hljóti að vita eitthvað meira en við hin miðað við tímasetningu streymisins. 

Hann sagðist þó ekki vera með mikinn húmor fyrir aðstæðunum.

Búinn að fresta tónleikunum þrisvar

„Þetta er ekki fyndið, þetta er bara hundfúlt,“ sagði hann og bætti við að hann sé með fimm selda tónleika í Háskólabíói eftir rúmar þrjár vikur.

„Ég er búinn að fresta þeim þrisvar. Og á að þurfa að fresta þeim einu sinni enn? Ég bara trúi því ekki,“ sagði hann og benti á að sóttvarnaraðgerðir hafi hingað til yfirleitt varið í nokkrar vikur.

Um þá fullyrðingu að hann hafi áður bjargað geðheilsu þjóðarinnar í gegnum sjónvarpstónleika sína sagði Helgi að tónleikahaldið hafi einnig bjargað hans eigin geðheilsu.

Maður sá þetta engan veginn fyrir sér

„Það var yndislegt að halda áfram að „fremja“ músík. Og frábært að einhver var að hlusta,“ sagði hann. 

Helgi sagði að það hefði verið algjör tilviljun að hann ákvað að bjóða upp á streymið um verslunarmannahelgina. 

„Mér fannst [þetta] mjög áhugavert. Maður sá engan veginn fyrir sér að það yrði ekki allt opið bara,“ útskýrði hann og bætti við að hann hafi viljað vera til staðar fyrir fólk sem ekki færi á útihátíðir og væri kannski bara heima eða í sumarbústað og vantaði skemmtun.

„Bjóða þá upp á þetta partí sem væri hægt að kveikja á í stofunni eða í bústaðnum,“ sagði Helgi sem kveðst hafa verið spenntur að sjá hvort það yrði áhugi fyrir þessu. 

Hægt er að kaupa aðgang að tónleikum Helga sem ganga undir því viðeigandi nafni VerslunarmannaHelgi inn á Tix.is en einnig á myndlyklum Símans og Vodafone.

Hlustaðu á viðtalið við Helga í spilaranum hér að neðan.

 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir