10% meiri umferð í gegnum göngin

Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga Vaðlaheiðagöng
Valgeir Bergmann framkvæmdastjóri Vaðlaheiðaganga Vaðlaheiðagöng Margrét Þóra Þórsdóttir

Valgeir Bergmann Magnússon, framkvæmdastjóri Vaðlaheiðarganga, segir að 10% meiri umferð hafi farið í gegnum göngin í síðustu viku miðað við þegar mest var 2019. 22 þúsund bílar keyrðu í gegnum göngin síðustu viku, eða yfir 3.000 á dag en margir hafa leitað á Norðurland í góðviðrið sem þar hefur verið síðastliðnar vikur.

Enn meira en fyrir Covid

„Þetta er 10% meiri umferð heldur en þegar mest var 2019 fyrir Covid og allir útlendingarnir voru hérna,“ sagði Valgeir í samtali við Ísland vaknar á K100 en hann ræddi um göngin og sumarið í þættinum í morgun. Hann sagði þó að almennt væri umferðarmesti tíminn vikan fyrir verslunarmannahelgi.

„Það er spurning hvort við séum búin að toppa þetta eða hvort við munum ná nýju meti,“ sagði hann. 

Ræddi hann auk þess um nýtingu heita vatnsins í göngunum í væntanlegan baðstað og um afmælisgjöf hins 98 ára Þórólfs Guðnasonar í Lundi í Fnjóskadal sem átti sér þann draum að lifa það að fara í gegnum Vaðlaheiðargöng.

Mælti hann með því að útvarpsfólk K100 sem mun vera með beina útsendingu frá Húsavík seinnipartinn á morgun og á laugardag, prófaði að setja höndina út og finna hitann í göngunum á leið sinni í gegn. 

Hlustaðu á allt viðtalið við Valgeir í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir