Sýna uppskeru sumarsins

Mikið verður um að vera þann 22. júlí en þá …
Mikið verður um að vera þann 22. júlí en þá fer fram lista- og uppskeruhátíð skapandi sumarstarfa í Kópavogi. Ljósmyndir/Skapandi sumarstörf í Kópavogi

Það er svo gaman að fylgjast með sköpunargleði yngra fólksins og sjá hvað framtíðarlistamenn landsins búa yfir skemmtilegum hæfileikum.

Á morgun, 22. júlí, frá klukkan 17 til 20, fer fram lista- og uppskeruhátíð hjá skapandi sumarstörfum í Kópavogi og verður þar ýmislegt í boði. Hátíðin er haldin í húsnæði Molans, Hábraut 2 í Kópavogi, og er sýningin haldin af ungu listafólki á aldrinum 18-25 ára.

Þetta skapandi sumarstarf veitir listafólkinu tækifæri til að vinna að eigin listsköpun og hefur þetta reynst mikilvægur stökkpallur fyrir marga sem teljast með efnilegra listafólki landsins. Í sumar átti sér stað 21 spennandi og ólíkt verkefni og voru 34 listamenn sem unnu að þeim úr mismunandi miðlum. 

Dagskráin býður upp á silfursmíði og myndlistasýningar, sjávarsinfóníu úr upptökum frá hvölum, útvarpsleikrit, tónlistargjörninga og margt fleira. Þetta eru flest verkefni sem starfað hafa innan Skapandi Sumarstarfa í Molanum frá upphafi og því stór og skemmtileg hátíð í vændum.

 Á lokahátíðinni munu listamennirnir deila afrakstri sumarsins með gestum og gangandi, áhugasömum og forvitnum sem langar að kynna sér það athyglisverðasta í íslensku grasrótinni. Allir eru velkomnir á þennan skemmtilega viðburð og ég mæli með því að fólk geri sér ferð í Kópavoginn á morgun og upplifi gleðina og fjölbreytnina sem listin býður upp á. 

mbl.is

#taktubetrimyndir