„Mér finnst þetta bara svo ógeðslegt“

Manúela Ósk Harðardóttir er ekki mikil sundkona.
Manúela Ósk Harðardóttir er ekki mikil sundkona. Instagram

„Mér finnst þetta bara svo ógeðslegt og þetta er svo óþrifalegt,“ sagði Manúela Ósk í Helgarútgáfunni aðspurð hvers vegna hún þoldi ekki að fara í sund, en athafnakonan fór í fyrsta sinn í sund í að minnsta kosti 16 ár á dögunum. 

Hún mætti í þáttinn á K100 og ræddi um helgarplönin, Bachelorette og stóra „instagramránið“ sem einnig hefur verið nefnt „bankarán 21. aldarinnar“.

„Ég lét mig hafa það á Akureyri og ég er bara „trámuð for life“,“ sagði Manúela og bætti við að hún viti ekki hversu langt er síðan hún fór síðast í sund en að minnsta kosti hafi hún aldrei farið síðan sonur hennar fæddist, en hann er 16 ára. Sagði hún að sundhræðslan hafi ekkert að gera með spéhræðslu enda sé hún oft á sundfötum. Sundhræðslan hafi allt að gera með óþrifnaðinn sem hún upplifi í lauginni.

„Ég sé bara fólk snýta sér,“ sagði hún og hryllti sig við að heyra um fljótandi plástra í lauginni.

„Örugglega ógeðslega margir sem pissa bara hérna,“ sagði Manúela og endurtók hversu mikið áfall það hafi verið fyrir hana að fara í sund. „Ég bara meika þetta ekki!“

Hálfhrædd við að tjá sig

Spurð út í árásirnar á íslenska áhrifavalda á Instagram, sem hafa haft mikil áhrif á marga Instagram-stjörnuna síðastliðnar vikur, sagði Manúela að hún hafi vissulega verið stressuð um að hún yrði fyrir barðinu á hakkaranum. Sjálf er hún með hátt í 55 þúsund fylgjendur á miðlinum en hún sagðist vera hálfhrædd við að tjá sig um málið. 

Með allt lífið í símanum

„Það greip um sig svona kvíði. Kannski aðallega því maður er smá með allt lífið sitt þarna í símanum,“ sagði hún. „Það er allt í honum. Maður hugsar; ef einhver myndi hakka símann manns væri hann svolítið að yfirtaka líf manns. Eins og Instagram: Ég nota það mjög mikið til að tala við fólk og auðvitað sem markaðstól. Þannig að þetta er svolítið „scary“,“ sagði Manúela. 

„Það er einhvern veginn allt þarna inni. En þetta er gott spark í rassinn fyrir marga sem eru ekki með öryggið upp á tíu, af því að það á að vera hægt að tryggja sig. Ég fór allavega bara í það um leið,“ sagði Manúela og benti á að margir væru með alla miðlana sína tengda og jafnvel bara eitt lykilorð sem væri í raun bara heimskulegt.

Þegar talið barst að Bachelorette sagðist Manúela vera ákaflega spennt enda séu mennirnir í þessari seríu með piparjónkunni Katie Thurston sérstaklega dramatískir og skemmtilegir. 

Hlusta má á viðtalið við Manúelu hér að neðan.

mbl.is

#taktubetrimyndir