Byrjaði fertug og stendur uppi sem Íslandsmeistari

Björk Erlingsdóttir ber nú titilinn Íslandsmeistari í mótorkross en hún …
Björk Erlingsdóttir ber nú titilinn Íslandsmeistari í mótorkross en hún byrjaði ekki að stunda íþróttina, sem hún segir að sé ein sú erfiðasta í heimi, fyrr en um fertugt. Samsett ljósmynd: K100/Skjáskot af Instagram

Björk Erlingsdóttir, á 55. ári, vann titilinn Íslandsmeistari í mótorkrossi á dögunum. Hún mætti í Ísland vaknar í morgun og ræddi þar um íþróttina. Sagði hún að þótt hún héldi titlinum eins og stendur væri keppnin enn í gangi og því kæmi í ljós hvort hann væri kominn til að vera. 

Björk, sem jafnan er kölluð Bína eða Brjálaða-Bína í mótorkrossinum, segist hafa byrjað að stunda íþróttina eftir að börnin hennar byrjuðu að stunda hana en þá var hún fertug.

„Mig langar svo að prófa“

„Þetta byrjar á því að ég á dóttur sem varð fyrir svo miklu einelti sem barn og hún hrökklaðist úr svo mörgum íþróttum að við ákváðum að prófa að fara í mótorkross. Þetta samfélag er svo stórkostlegt. Það eru allir velkomnir, allir boðnir og búnir að hjálpa manni,“ sagði Bína, sem segir að íþróttin hafi slegið í gegn hjá báðum börnum hennar. 

„Ég hugsaði bara vá, þetta er svo skemmtilegt. Mig langar svo að prófa. Ég kunni ekki einu sinni að skipta um gír,“ sagði hún.

Bína fór ekki hægt í sakirnar í sambandi við mótorkross en í fyrsta sinn sem hún steig upp á hjól var á æfingu fyrir keppni á Sólheimasandi.

„[Það var] nóg pláss en mér tókst að keyra á einu kerruna á svæðinu,“ sagði Bína. 

Bína segir að mikilvægt sé að vera með gott úthald til að æfa íþróttina en sjálf æfir hún crossfit með mótorkrossinum sem hún segir að sé frábær íþrótt með. 

„Þú þarft að vera með góða einbeitingu við það sem þú ert að gera því þetta er ein erfiðasta íþróttagrein í heiminum, að stunda mótorkross. Það er búið að kanna það,“ sagði hún. 

Fékk karlmann á bakið

„Það er svo margt sem er í gangi og svo breytist brautin í hverjum einasta hring. Það eru alls konar hindranir sem þú lendir í. [Þú gætir] flogið út af braut, lent á hjóli. Þú veist aldrei hvernig næsti hringur verður,“ sagði Bína, sem segir að keppendur fái ekki að keppa nema vera í öllum þeim brynjum og vörnum sem séu nauðsynlegar í íþróttinni.

„Ég hef fengið fullorðinn karlmann á bakið á mér á hjóli og ég hélt ég væri hálf í klessu en ég stóð bara upp og hélt áfram,“ sagði hún.

 Hlustaðu á allt viðtalið við Björk Erlingsdóttur í spilaranum.

mbl.is

#taktubetrimyndir