Fór Branson út í geim?

Skiptar skoðanir eru á því hvort Branson hafi farið út …
Skiptar skoðanir eru á því hvort Branson hafi farið út í geim um daginn samkvæmt Stjörnu-Sævari. Samsett mynd: mbl.is/Kristinn Magnússon / AFP

Stjörnufræðingurinn Sævar Helgi Bragason eða Stjörnu-Sævar eins og hann er stundum kallaður mætti í Ísland vaknar og ræddi um nýjustu fréttir úr geimvísindunum en hann segir meðal annars að það séu skiptar skoðanir um það hvort breski viðskipta­jöf­ur­inn sir Rich­ard Bran­son hafi raunverulega farið út í geim 11. júlí síðastliðinn. 

Ekki til nein alþjóðleg skilgreining

„Það er nefnilega ekki til nein alþjóðleg viðurkennd formleg skilgreining á því hvar geimurinn byrjar,“ útskýrði Sævar. „Almennt álítur Nasa, eða hluti af Nasa, að það að vera kominn í 80-85 kílómetra hæð sé geimurinn eða jaðarinn á geimnum. Bandaríska flugmálastofnunin líka og flugherinn. En alþjóðaflugmálastofnunin lítur á 100 kílómetra hæð sem upphaf geimsins,“ sagði Sævar og bætti við að stjórnstöð Nasa skilgreindi geiminn enn hærra eða í 122 kílómetra hæð. 

„Þannig að það fer eftir því hvar geimferðin á sér stað hvort þú ert á geimfari eða ekki,“ útskýrði Sævar en geimferðir þær sem Branson fór í og Virgin Galactic býður upp á fara í um 85 kílómetra hæð.

„En þegar þú ert í svona mikilli hæð, 85 til 100 [kílómetra hæð], þá hættirðu svolítið að finna fyrir áhrifum lofthjúpsins. Þú getur ekki flogið lengur venjulegri flugvél í þessari hæð. Þú finnur samt enn fyrir andrúmsloftinu. Það veldur því að þú getur ekki haldið þér mjög lengi á sporbaug um jörðina í þessari hæð. Jörðin vill toga þig niður,“ sagði hann. 

Stórkostlegt útsýni

„Þegar fólk er í þessari hæð nýtur það stórkostlegs útsýnis. Heldur betur. Það sér jörðina ekki sem fullkomna kúlu heldur sem áberandi sveigðan sjóndeildarhring,“ sagði Sævar sem segir geimferð Virgin Galactic án vafa vera ótrúlega ævintýraferð. 

Sævar ræddi meðal annars um yfirvofandi geimferð Gísla Gíslasonar sem á miða með Virgin Galactic en hann ræddi við Ísland vaknar fyrr í mánuðinum.

Hlustaðu á allt viðtalið við Sævar í spilaranum hér að neðan.

 mbl.is

#taktubetrimyndir