„Þó ég vilji vera nakin þurfa ekki allir að vera naktir“

„Það eru mjög margir karlmenn sem eru með stærri „júllur“ …
„Það eru mjög margir karlmenn sem eru með stærri „júllur“ en ég. En afhverju er svona rosalega mikil þörf á að ég fari í topp en ekki þeir?“ spurði Camilla í Ísland vaknar í morgun. Skjáskot/Instagram-síða Camillu

Camilla Rut kom að vana í Ísland vaknar og spjallaði við þau Kristínu Sif og Einar Bárðarson um umræðuna um frelsi geirvörtunnar og þá rökræðu sem hefur verið til staðar í samfélaginu á síðustu dögum síðan ungri, íslenskri konu var vísað upp úr Sky Lagoon fyrir að vera berbrjósta.

„Það eru allir með sín mörk og gera það sem þeir vilja. Ég er alveg opin fyrir öllu. Það kemur mér ekkert við. Þó ég vilji vera nakin þá þurfa ekki allir að vera naktir,“ sagði Camilla Rut sem segir þó að hún hugsi oftast um sín brjóst sem kynfæri. 

„Fólk ætti að fá að gera það sem það vill“

„[Það] Fer samt eftir hvar ég er í mínu ferli og á hvaða stað ég er hverju sinni. Svo þegar ég er með börn á brjósti er ekkert kynferðislegt við þetta. Þannig að ég er bara á því að fólk ætti að fá að gera það sem það vill. Og upphefja líkama sinn á þann hátt sem það vill,“ sagði hún. „Af hverju má fólk ekki bara gera það sem því líður best með, með sinn líkama?“ 

Sjálf sagðist Camilla ekki hafa farið berbrjósta í almenningslaug, aðeins í útilaugar eins og Seljavallalaug, en hún sagði frá því þegar hún gleymdi sundfötum á leið sinni í laugina með vinkonum og skellti sér því bara nakin með.

 „Af hverju ekki? Eru ekki allir vinir eða? Svo tók ég myndir af því og setti á „insta“,“ sagði Camillia kímin og vísar í Instagram-mynd sem fékk umræðu í fjölmiðlum á sínum tíma. 

View this post on Instagram

A post shared by CAMY (@camillarut)

Þá sagði Camilla einnig frá því þegar hún fór í detox-ferð til Póllands þar sem innfæddir móðguðust yfir því að Íslendingarnir vildu vera í sundfötum í gufubaðinu á hótelinu. 

„Þetta er svo breytilegt eftir menningu,“ sagði hún.

Camilla benti á myndasögu sem hefur farið um víðan völl á samfélagsmiðlum upp á síðkastið þar sem mynd er af eldri manni og eldri konu sem eru nánast nákvæmlega eins vaxin en maðurinn gagnrýnir konuna samt fyrir að vera berbrjósta. 

Myndasagan umrædda. Karlmaðurinn í myndasögunni gagnrýnir konuna fyrir að fara …
Myndasagan umrædda. Karlmaðurinn í myndasögunni gagnrýnir konuna fyrir að fara berbrjósta á ströndina. Scott Metzger – www.metzgercartoons.com

„Nú er ég formaður í „itty bitty titty committee“, ég er ekki með stórar „júllur“. Það eru mjög margir karlmenn sem eru með stærri „júllur“ en ég. En af hverju er svona rosalega mikil þörf á að ég fari í topp en ekki þeir?“ spurði Camilla. 

„Ég held að konur séu orðnar svo sterkar við að takast á við þetta og vera bara nei, við tökum ekki þátt í þessu. Ef þér finnst þetta óþægilegt þá er það þitt vandamál,“ sagði hún. 

Hlustaðu á allt spjallið við Camillu í spilaranum hér að neðan.

 


 

mbl.is

#taktubetrimyndir