Stebbi Jak. er með ráðið við lúsmýi

Stebbi Jak segir að ráðið við lúsmýi sé að dvelja …
Stebbi Jak segir að ráðið við lúsmýi sé að dvelja lengi í Mývatnssveit en sjálfur segist hann ekki fá bit þrátt fyrir að dvelja á stöðum þar sem lúsmýið heldur sig. Samsett ljósmynd: Valdís Þórðardóttir/Eggert Jóhannesson

Stefán Jakobsson eða Stebbi Jak., Mývetningur og söngvari rokkhljómsveitarinnar Dimmu, segir Mývetninga afar vana ýmsum tegundum mýflugna en um 40 tegundir af mýi þekkist í Mývatnssveit.

Lúsmýið alræmda virðist þó ekki hafa numið land þar enn, þótt það hafi nú dreift sér víða um land. Mývargurinn svokallaði geti þó verið afar hvimleiður en hann kemur að sögn Stebba og fer. Stebbi telur sig þó vera með lausnina við mýinu en hann ræddi um hugsanlegt ónæmi gegn lúsmýi í spjalli við Ísland vaknar á dögunum.

Skárri en lúsmý

Sagði hann varginn svokallaða þó vera mun skárri en lúsmýið.

„[Vargurinn] er þá allavega bara pínu leiðinlegur og aðeins nartar í mann en þetta lúsmý hakkar sig í gegnum fólk,“ sagði Stebbi. „En eitt af því sem virðist gerast er að það myndast eitthvert ónæmi og ég til dæmis hef farið á svæði þar sem er lúsmý og það hefur alveg látið mig í friði. Ég hef ekki fengið eitt bit,“ sagði Stebbi en hann segist hafa hlustað á fréttir um slíkt ónæmi sem geti myndast hjá fólki.

„Ég skal segja ykkur hvað ráðið er. Ráðið er að dvelja töluvert lengi í Mývatnssveit. Þá lagast þetta,“ sagði Stebbi glettinn. 

Stebbi spjallaði einnig um líf tónlistarmannsins í þættinum en hann tók bílskúrinn sinn í Mývatnssveit í gegn á dögunum og býður nú upp á fimmtudagstónleika í skúrnum í sumar.

Hlustaðu á spjallið við Stebba í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir