„Hérna get ég alveg verið alvörudrottning“

Ásdís Rán Gunnarsdóttir segist ekki vera að elta peninga en …
Ásdís Rán Gunnarsdóttir segist ekki vera að elta peninga en vill heldur gera það sem henni þykir skemmtilegt. Hún hefur þó ekkert á móti því að lifa dýrum lífstíl sem þó er auðveldara í Búlgaríu, þar sem hún er búsett, en á Íslandi.

Ásdís Rán segir mun auðveldara og ódýrara að lifa svokölluðum dýrum lífsstíl í Búlgaríu en á Íslandi en sjálf segist hún einbeita sér að því sem henni þykir skemmtilegt, mun frekar en að græða peninga. Hún ræddi um lífið í Búlgaríu, þar sem hitinn hefur haldist yfir 30 gráðum upp á síðkastið, í samtali við Ísland vaknar. 

„Ég lifi bara svona eðlilegu lífi,“ sagði Ásdís. „Mér finnst bara miklu skemmtilegra að gera það sem mér finnst skemmtilegast að gera. Ég tek það fram yfir of mikið af peningum. Það er miklu skemmtilegra að gera það sem er skemmtilegt,“ sagði hún. Hún tók þó undir þá staðhæfingu að það væri skemmtilegra að gráta í Rolls Royce-bifreið. 

Fílar dýran lífsstíl

„Jú, ég er svolítið spillt. Ég er mikið fyrir glamúr og glys. Svo jújú, ég fíla alveg dýran lífsstíl,“ viðurkenndi Ásdís. Aðspurð sagði hún þó að það væri miklu ódýrara að lifa þeim lífsstíl í Búlgaríu en á Íslandi.

„Hérna get ég alveg verið alvörudrottning,“ sagði hún. 

Ásdís stefnir á að koma til Íslands á næstu tveimur vikum en hún segist hlakka til að geta kælt sig niður í heimalandinu eftir hitann í Búlgaríu.

„Það er öðruvísi stemning þegar þú býrð einhvers staðar þar sem er alltaf svona heitt. Þú ert ekkert við sjó eða vatn. Þú ert ekki hálfstrípaður, þú þarft að vera í fötum. Og þetta er stórborg. Það getur verið mjög heitt,“ sagði hún.

Ellý Ármanns spáði í spilin í lokin fyrir Ásdísi sem sagði allt vera rétt hjá Ellý.

Hlustaðu á allt viðtalið við Ásdísi í spilaranum hér að neðan.

 

mbl.is

#taktubetrimyndir