„Þetta voru erfiðustu dagarnir mínir“

Leikkonan Íris Tanja Flygenring hefur heldur betur vakið heimsathygli fyrir …
Leikkonan Íris Tanja Flygenring hefur heldur betur vakið heimsathygli fyrir túlkun sína á persónunni Ásu í vinsælu íslensku Netflix-þáttunum Kötlu. Hún segist samt sjálf vera afar venjuleg tveggja barna móðir í Laugardalnum. Ljósmynd/Aðsend

Leikkonan Íris Tanja Flygenring hefur sannarlega vakið athygli um heim allan fyrir leik sinn í Netflix-þáttunum Katla en hún spjallaði um þættina og leikkonulífið í morgunþættinum Ísland vaknar á dögunum. Sagðist hún meðal annars fá skilaboð frá fólki hvaðanæva úr heiminum og viðurkenndi að hún fyndi fyrir dálitlum félagskvíða vegna allrar athyglinnar en einnig ljóstraði hún upp uppskriftinni að öskunni sem umlykur líkama persónanna í þáttunum.

Ég hef alveg tekið þátt í verkefnum áður en ekki af þessari stærðargráðu. [Þetta er] mikið tækifæri og rosa gaman. Rosa gaman að skapa eitthvað svona sem hefur ekki verið gert áður á Íslandi,“ sagði Íris Tanja.

Venjuleg tveggja barna móðir

Sjálf segist Tanja ekki upplifa sig sem einhverja fræga stjörnu heldur sé hún afar venjuleg manneskja; tveggja barna móðir í Laugardalnum sem versli í Bónus.

„En það er alveg gaman að fá kveðjur frá fólki alls staðar að út heiminum. Alls konar kveðjur á Instagram, frá Mexíkó og Sádi-Arabíu,“ sagði Íris og bætti við að þættirnir væru sérstaklega vinsælir í Brasilíu þaðan sem mörg skilaboðin koma.

„Ég er voða eðlileg manneskja. Eina sem ég finn núna er að ég með smá félagskvíða sem er svolítið skrýtið því ég er algjört félagsfiðrildi. Þannig að þetta er svolítið skrýtið. En það er mikið verið að horfa og stara og koma og tala um þetta. Auðvitað vil ég gefa fólki það þannig að ég þarf að velja það hvenær ég er í standi til þess,“ sagði hún.

„Ég er farin að velja það aðeins,“ bætti Íris við en hún sagði að stundum væri mikið í gangi hjá henni eða hún þreytt og verr upplögð til að upplifa að hún sé þekkt fyrir þættina.

Ekki alltaf upplögð

„Ég hef alveg lent í því að vera með barnið mitt í sundi klukkan hálfníu og vera að klæða hana í náttföt og fá hana til að borða banana og svo kemur einhver og byrjar að tala um Kötlu. Þá er ég alveg svona: „Kannski seinna, ég er allsber að klæða barnið mitt“,“ sagði Íris og en bætti við að langoftast væri samt mjög gaman þegar fólk kæmi og segði hæ.

„Það er skrítið þegar fólk er að horfa mikið og pískra. Þannig að endilega komið bara frekar og segið hæ, ég er búin að vera að horfa á Kötlu,“ sagði hún.

Íris Tanja segir að dagarnir, þar sem hún þurfti að …
Íris Tanja segir að dagarnir, þar sem hún þurfti að vera þakin gervi -sku, sem gerð var meðal annars úr matarlími, hafi verið erfiðastir í tökum á Kötlu.

Spurð um „íkonísku“ senuna þar sem Ása, persóna Írisar, rís upp úr ösku Kötlu

og öskuna sem þekur líkama hennar hló Íris Tanja og spurði hvort hún ætti að uppljóstra leyndarmáli öskunnar. Hún viðurkenndi þá að askan væri gerð úr engu öðru en matarlími, svörtum duftlit, haframjöli, hveiti og vatni.

„Þetta er ískalt þegar þetta er sett á og svo grjótharðnar þetta og ef ég hreyfi mig aðeins er eins og húðin sé að rifna,“ sagði hún og bætti við: „Þetta voru erfiðustu dagarnir mínir. Andlega og líkamlega. Að vera læstur inni í þínum eigin líkama þannig séð og geta lítið gert.

Þegar þetta harðnar byrjar þetta að „cracka“ og brotna aðeins og það er náttúrulega „elimentið“ sem við vildum, að þetta myndi brotna eins og askan gerir og hraunið,“ sagði Íris.

Íris Tanja mætti í stúdíó K100.
Íris Tanja mætti í stúdíó K100.

Óvissa vegna Covid

Íris sagði að faraldur Covid-19 hefði sett sitt mark á tökur þáttanna en hún benti á að hlé hefði verið gert á tökum eftir aðeins um tvær vikur vegna útbreiðslu sjúkdómsins á Íslandi. Hún lýsti óvissunni sem ríkti á settinu í kjölfarið.

„Erum við ekki alveg að fara að gera þetta? Af því að okkur langaði öll svo að gera þetta. Það er held ég það sem er gegnumgangandi í þessari framleiðslu. Það voru allir; frá „rönner“, í leikstjóra, í leikara, í hljóð og búninga, það voru allir sem höfðu svo mikla trú á þessu,“ sagði Íris og bætti við að á tímabili hefðu þau verið eina kvikmyndaliðið sem var starfandi ásamt einni annarri framleiðslu í Suður-Kóreu.

Lýsti hún því hversu vel allt var skipulagt vegna Covid-19 en starfsfólk á setti var meðal annars hitamælt mjög reglulega auk þess sem svæðið var allt hólfað niður og litakóðað.

„Við vildum bara að þetta myndi ganga,“ sagði Íris.

Spurð um það hvort von væri á seríu tvö af Kötlu varð Íris Tanja leyndardómsfull.

„Það er spurning. Vilja ekki allir meira? Það væri mjög gaman ef það yrði sería tvö,“ sagði hún. „Þetta veltur allt á áhorfi og vinsældum. Þannig að endilega horfa. En auðvitað er þetta mjög vinsælt,“ bætti hún við.

Hlustaðu á viðtalið við Írisi Tönju í spilaranum

 

mbl.is

#taktubetrimyndir