Vaknaði með 42 ósvöruð símtöl

Geoffrey var ánægður með helgina þrátt fyrir að hafa fengið …
Geoffrey var ánægður með helgina þrátt fyrir að hafa fengið lítinn fyrirvara til að undirbúa fyrir djammþyrsta Íslendinga. mbl.is/Kristinn Magnússon

Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams, eigandi skemmtistaðarins Priksins, vaknaði við það að vera með 42 ósvöruð símtöl eftir að hafa lagt sig meðan á fundi almannavarna stóð á föstudag en þar var tilkynnt að öllum takmörkunum vegna farsóttarinnar Covid-19 yrði aflétt á miðnætti það kvöld. Hann ræddi við Sigga og Loga í Síðdegisþættinum á K100 um helgina í gær. 

Á við menningarnótt og hinsegin daga

Sagði hann að allt hefði farið á fullt í kjölfarið en gengið vonum framar miðað við að hafa fengið aðeins nokkurra tíma fyrirvara til að undirbúa kvöldið og staðfesti að nóttin hefði verið á við stærstu daga ársins og minnt á þátttöku á menningarnótt og hinsegin dögum.

Einhver innspýting í samfélaginu

„Við erum búin að venjast því að vera með lokað eitt undanfarnar vikur og að fá þessa aukningu þarna var náttúrlega einhver innspýting í samfélaginu sem ég held að enginn hafi búist við. Við sáum að það voru bara fjólublá ljós við barinn og gangandi partí föstudag og laugardag,“ sagði Geoffrey. 

Sagði hann að mikið hefði verið að gera á Prikinu á fimmtudag og hafði hann því ákveðið að leggja sig á föstudagsmorgun.

„Ég vaknaði um það bil hálftíma eftir að fundi var slitið með einhver 42 [ósvöruð símtöl]. Þannig að það fóru bara allir í bátana. Þess vegna erum við í þessum bransa. Það er svo gaman þegar það er gaman. Ef það væri ekki gaman þá væri leiðinlegt,“ sagði Geoffrey.

Hlustaðu á allt viðtalið við Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams í Síðdegisþættinum.

 mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir