Býr yfir vinnusemi og seiglu vegna golfsins

Jóhannes Guðmundsson er mikill golfari.
Jóhannes Guðmundsson er mikill golfari. Skjáskot/Facebook-síða GSÍ/golf.is

Jóhannes Guðmundsson er mikill golfari sem hefur verið að kenna í barna- og unglingastarfi hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Hann er mikill talsmaður golfs og segir það gott fyrir bæði líkama og sál. Ég fékk að ræða aðeins við hann um golfið.

„Ég komst inn í golfið þegar mamma og pabbi skráðu mig á golfnámskeið í Mosfellsbæ. Ég man lítið eftir golfinu á námskeiðinu en það sem er enn þá mjög eftirminnilegt er maturinn í klúbbhúsinu sem við krakkarnir fengum í hádeginu. Eftir námskeiðið byrjuðu mamma og pabbi að plata mig út á völl. Ég sló af fremstu teigum en gekk auðvitað hræðilega illa þannig að pabbi tók alltaf upp boltann minn og færði hann nær flötinni. Ég man hvað þetta fór í taugarnar á mér. Ég vildi geta spilað golfið eins og foreldrar mínir en ekki fá einhverja hjálp. Stuttu seinna var ég kominn á fullt í golfinu og byrjaður að æfa af krafti hjá Golfklúbbi Reykjavíkur. Þar kynntist ég mörgum af bestu vinum mínum í dag. Á sumrin keyrðu foreldrar mínir mig upp á æfingasvæði fyrir vinnu og síðan stóð tvennt til boða; að vera sóttur í hádeginu eða að vera sóttur þegar þau kláruðu vinnuna  sem ég valdi alltaf. Margar af mínum bestu minningum úr æsku eru frá þessum tíma. Við strákarnir kepptum á móti hver öðrum í ýmsum leikjum sem við bjuggum til frá morgni til kvölds,“ segir Jóhannes og segir golfið hafa krafist þrautseigju en búið yfir mikilli gleði.

Hefur fengið mörg tækifæri í gegnum golfið

„Ég dróst síðan inn í keppnisgolf á barna- og unglingamótaröðinni enda með mikið keppnisskap og hef verið að keppa í golfi síðan þá. Í gegnum golfið hafa síðan mörg tækifæri sprottið eins og að stunda háskólanám í Bandaríkjunum á skólastyrk.“

Jóhannes segir golf hafa gert góða hluti fyrir sig. „Það sem mér finnst skemmtilegast við golfið er hvað það nýtist úti í lífinu. Ég bý yfir vinnusemi og seiglu vegna golfsins. Það er mikið lagt upp úr heiðarleika í íþróttinni og síðan þarf maður að tileinka sér ákveðna seiglu ef mann langar að standa sig vel. Manni er nefnilega oft refsað fyrir góð högg og íþróttin er manni oft ósanngjörn á tímum. Þess vegna þarf maður að standa með brjóstkassann út þegar á móti blæs og ekki gefast upp,“ segir Jóhannes og bætir við að lokum: „Síðan má ekki gleyma því að golf er íþrótt sem maður getur stundað allt lífið. Það eru ekki margar íþróttir sem eiga þetta sameiginlegt með golfinu. Ég er foreldrum mínum óendanlega þakklátur fyrir að hafa kynnt mér golfíþróttina og styðja við mig sama hvernig gengur.“

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir