Ætla sér að vera skemmtilegasta „dating“-appið

Skjáskot/Instagram

„Jújú, það má alveg segja það en eru þau góð, eru þau skemmtileg?“ spyrja þeir Ásgeir Vísir og Hannes Agnarsson, eigendur stefnumótaforritsins Smitten, aðspurðir hvort ekki sé nú þegar til nóg af stefnumótaforritum í morgunþættinum Ísland vaknar.

„Það er það sem við erum að reyna að gera. Við erum að reyna að búa til skemmtilegasta „dating“-appið í heiminum. Þetta er fyrst og fremst nálgunin á markaðinn. Það sem við erum að gera er að „targeta“ það sem kallast Z-kynslóðin eða 0-kynslóðin. Þetta er reyndar fullkomin kynslóð vegna þess að þau krefjast þess að hlutirnir séu skemmtilegir. Þetta er fólk sem fæðist eiginlega bara með snjallsíma í vasanum og það sem við erum að gera er í rauninni bara að mæta kröfum þeirra í þessum málum,“ segja þeir enn fremur.

Spurningaleikir Smitten svara mörgum forvitnilegum hlutum.
Spurningaleikir Smitten svara mörgum forvitnilegum hlutum. Skjáskot/Smittendaiting.com

25 þúsund Íslendingar á Smitten

Ásgeir og Hannes segja Z-kynslóðina í rauninni bara vilja hafa gaman og því sé Smitten fullkomið forrit fyrir þau. Nú þegar séu um 25 þúsund Íslendingar komnir inn á forritið.

„Ég held að að mörgu leyti þurfirðu bara að velja það sem þú heldur að þér finnist vera betra fyrir þig. Það sem við teljum okkur hafa fram yfir Tinder til dæmis er að við erum náttúrlega skemmtilegri, við erum með alls konar leiki og þetta er miklu meiri svona dægrastytting en að þú sért bara að koma þarna inn til þess að finna þér maka eða hvað sem það er. Það eru líka meiri og skemmtilegri upplýsingar. Þú færð ekkert að vita um manneskjuna á Tinder en það sem þú færð að vita hjá okkur eru svo miklu meiri og dýpri upplýsingar um hverja manneskju til þess að taka ákvörðun hvort þig langi að „like-a“ hana eða ekki. Þú kynnist henni í gegnum leiki,“ segja þeir.

Þeir segja eldri kynslóðir ekki endilega skilja hvers vegna yngri kynslóðir sæki í öðruvísi stefnumótaleiðir en gengu og gerðust áður fyrr og segja það fullkomlega eðlilegt.

„Þetta er náttúrlega bara skólabókardæmi um kynslóð sem skilur ekki yngri kynslóðir og þetta er í rauninni það sem við erum að gera. Fólk sem er eldra skilur ekkert endilega kynslóðirnar fyrir neðan sig og þetta er alltaf sama sagan: „Ég gerði þetta svona, af hverju gerið þið þetta ekki svona?“ Og þegar þú ert að framleiða vöru fyrir fólk sem er ekki vant þínum raunveruleika þarftu að hugsa þetta aðeins öðruvísi. Z-kynslóðin vill ekki hringja í neinn. Það er ástæða fyrir því að Íslandsbanki og allar þessar stofnanir eru komnar með svona „messenger chat“,“ segja þeir.

Leikirnir gefa fólki fullt af upplýsingum um hvern og einn.
Leikirnir gefa fólki fullt af upplýsingum um hvern og einn. Skjáskot/Smittendaiting.com

Færa sig yfir til hinna Norðurlandaþjóðanna

Smitten er aðgengilegt fyrir alla Íslendinga og næstu skref þeirra Ásgeirs og Hannesar er að stækka við sig og færa sig yfir til hinna norrænu þjóðanna og í kjölfarið enn lengra. Á dögunum fengu þeir fjármagn upp á 2,7 milljónir dollara eða 330 milljónir íslenskra króna.

„Þetta fjármagn dugar okkur í svona 18-24 mánuði en til þess að vera örugg munum við örugglega fara aftur í fjármögnun eftir svona 12 mánuði. Þannig að þetta dugar okkur allavega fyrir næstu skref og þannig eiginlega virkar þessi bransi svolítið. Þú tekur inn pening og þarft að sanna svona næstu „milestone-a“,“ segja þeir.

Til frekari útskýringar á forritinu útskýra þeir að í raun sé fólk að spila spurningaleiki til þess að fá að kynnast öðrum betur áður en þeir ákveða hvort þeir vilji halda áframhaldandi samtali. Spurningaleikurinn snýst um fólkið sjálft og á hver og einn að geta sér til um rétt svar er varðar einstaklingana sem þeir eru að skoða hverju sinni.

Viðtalið við þá Ásgeir og Hannes má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan: 

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir