Búnir að undirbúa túrinn í tvö ár

Skjáskot/Instagram-síða Króla

Jói P og Króli brjótast heldur betur út úr skelinni eftir Covidið í sumar en á morgun, 24. júní hefja þeir tónleikaferðalag sitt um landið.

„Við erum að túra heldur betur út um allt. Fjórtán bæjarfélög, vissulega er eitt að bætast við en það kemur allt í ljós sko. En það sem er staðfest eru fjórtán bæjarfélög á held ég sautján eða átján dögum. Það er ágætis keyrsla á þessu  og við svona kembum svæðið vel. Þetta er allt frá Hafnarfirði yfir í Neskaupstað og síðan tökum við Vestfirðina. Ég ætti nú að geta þulið þetta upp en ég bið kannski fólk frekar að fara inn á Tix.is og skoða þetta þar,“ segir Króli í viðtali við Síðdegisþáttinn þar sem bæði hann og Jói P mættu og fóru yfir stöðuna.

View this post on Instagram

A post shared by K R Ó L I (@kiddioli)

Aðspurðir segja þeir tónleikana fara yfir allan skalann. Allt frá þægilegum acoustic tónleikum og yfir í gott djamm.

„Við erum með heilt band með okkur sem að er búið að æfa alveg vel og lengi. Fyrir Covid vorum við eiginlega byrjaðir á því sko þannig að það er búið að undirbúa þetta hátt í tvö ár og síðan höfum við bara ekkert fengið að spila almennilega,“ segja þeir.

Báðir segjast þeir spenntastir fyrir því að fá að spila efni af nýju plötunni en þeir hafa aldrei fengið að spila hana almennilega.

Fjögur ár eru liðin síðan lagið BOBA var gefið út en þá voru þeir aðeins sextán og sautján ára gamlir. Líf Jóa P og Króla breyttist í kjölfarið á einni viku en lagið sló heldur betur í gegn hjá íslensku þjóðinni.

„Við vorum að ræða þetta áðan, fastir í umferð á leiðinni hingað að tala um þetta. Við vorum að ræða það að vera fullorðin og að það getur enginn undirbúið þig undir þetta. Við vorum náttúrulega bara börn sko við vissum ekki neitt,“ segja þeir og viðurkenna að þeir hafi ekki verið undirbúnir fyrir frægðina sem fylgdi vinsældum lagsins.

Viðtalið við þá Jóa P og Króla má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir