Fluttur til Íslands og leitar á ný mið

Róbert Gunnarsson leitar á ný mið.
Róbert Gunnarsson leitar á ný mið. mbl.is/Golli

„Ég var að flytja heim bara fyrir tveimur vikum. Það var nú ekki tekið vel á móti mér, síðasta mánuðinn úti var bara rigning, svo náði ég tveimur sólardögum og svo er búin að vera bongóblíða síðan ég fór og það hefur verið rigning hér síðan ég kom,“ segir fyrrverandi handboltamaðurinn Róbert Gunnarsson sem flutti nýlega aftur til Íslands eftir að hafa búið og spilað handbolta í Danmörku. Róbert var í viðtali við Síðdegisþáttinn þar sem hann ræddi um heimkomuna, handboltann og framhaldið.

„En svo þarf maður náttúrlega bara að klípa sig og minna sig á að maður er ekki að flytja til Íslands út af veðrinu. Þannig að því fyrr sem ég átta mig á því þeim mun betra verður þetta,“ útskýrir hann.

Kominn í fjölskyldufyrirtækið

Aðspurður út í framtíðina og hvort hann ætli að halda áfram með fatamerkið og fígúruna Bob svarar Róbert því til að nú sé hann að fara að snúa sér að allt öðrum hlutum en Bob sé þó ekki alveg dáinn.

„Það var nú bara þegar mér leiddist eða þetta var svona ágætis leið þegar maður var í rútunum í Þýskalandi og Frakklandi að dreifa huganum og undirbúa sig fyrir leiki að gera eitthvað allt annað og þá fór ég svona aðeins með Gunna Steini að þrykkja boli og svo gáfum við ágóðann til Unicef,“ segir hann og bætir við: „En svo hefur það nú aðeins legið, Bob heitir hann fígúran okkar og hann er eiginlega bara búinn að vera í „coma“ í núna svolítið langan tíma en við tökum hann ekki alveg úr sambandi. Það er enn þá von, við sjáum hvað gerist. En ég er nú bara kominn í fjölskyldufyrirtækið hjá pabba mínum að selja sófa og húsgögn. Það er bara nýr vettvangur.“

Viðtalið við Róbert má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir