Sér ekki eftir því að hafa flutt frá Íslandi

Anna Kristjánsdóttir hefur það gott í Paradís.
Anna Kristjánsdóttir hefur það gott í Paradís. mbl.is/Haraldur Guðjónsson

„Ég er reyndar ekki alfarin en mér líður vel þarna og það er ekkert sem krefst þess að ég komi reglulega til Íslands og það hefur bara verið bindandi að eiga einhverjar fasteignir á Íslandi og yfirleitt einhverjar eignir,“ segir Anna Kristjánsdóttir sem flutti til Tenerife árið 2019 í viðtali við Síðdegisþáttinn.  

„Mig hefur lengi dreymt um það að vera í sól og sumaryl allt árið og ég hef alltaf kunnað vel við góðan yl. Enda var ég lengi vélstjóri á sjó og þar sem helst var ylur um borð það var niðri í vélarúmi. Ég hugsaði mitt mál fyrir nokkrum árum, prófaði nokkra staði, hvar væri best að vera. Fór til Torrevieja, ég fór til Berlínar og ég hef nokkrum sinnum komið til Ítalíu, svo skoðaði ég hvar væri heppilegast að setjast að. Haustið 2018 þá álpaðist ég til Tenerife og var þar í viku og það var bara sól og sumarylur allan tímann og þá stefndi ég að því að fara þangað. Síðan ári síðar þá hreinlega pakkaði ég saman og fór,“ segir hún, spurð að því hvað varð til þess að hún ákvað að flytja frá Íslandi.

Sat innilokuð í nokkra mánuði vegna Covid

Anna segir það ekki hafa verið mikið mál að kveðja Ísland og flytja út en mesta vinnan hafi legið í pappírunum á Tenerife.

„Þegar ég kom á staðinn þá flutti ég í íbúð niðri í bæ í Los Christianos, þá fór ég fljótlega í það að ná mér í NE-númer, það er að segja svona kennitölu. Síðan liðu nokkrir mánuðir áður en ég sótti um residenciu, ekki dvalarleyfi heldur frekar að skrá mig inn í landið. Þá gerðist dálítið erfitt því að ég þurfti að framvísa leigusamningi og hann var kolvitlaus. Nú, ég ætlaði að tala við leigusalann, þá var hún stungin af heim til Rússlands og þegar hún kom aftur þá byrjaði þetta fræga ástand sem við köllum dáldið, svokallað Covid. Nokkrum dögum seinna skall allt í lás og ég sat þarna innilokuð í nokkra mánuði,“ segir Anna.

Anna segist aldrei hafa hugsað sér að flytja aftur til Íslands og sér hún ekki eftir því að hafa farið.

„Ég sat þarna bara í minni íbúð og beið þarna á meðan á þessu gekk. Herlögregla og Guð má vita hvað var keyrandi um göturnar og rekandi fólk inn með alls konar látum. Það var stríðsástand. En svo lagaðist þetta smám saman, þetta er reyndar ekki enn þá komið í gott lag,“ viðurkennir hún.

Anna stefnir á að fara í spænskuskóla í haust en hann lokaði vegna Covid og viðurkennir hún að spænskan sé ekki upp á sitt besta hjá henni.

Viðtalið við Önnu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir