Óvæntar kveðjur á 100 ára afmælisdaginn

Skjáskot/Instagram

Það er alltaf gaman að fagna afmælisdeginum sínum og þá sérstaklega þegar um stórafmæli er að ræða.

Maður að nafni John Kromhoff er búsettur á dvalarheimili aldraðra í Kanada og fagnar hvorki meira né minna en 100 ára afmæli sínu 24. júní. Heil öld af tilveru!

John var alveg búinn að sætta sig við að afmælisveislan yrði að vera lítil, þar sem elliheimilið leyfir einungis 10 gesti í einu, en samanlagt á hann 54 afkomendur ásamt mökum.

Barnabarn Johns deildi afmæli afa síns á netinu með opinni færslu og sagði að ef einhver hefði áhuga á að hjálpa þeim að gleðja afann á þessu stórafmæli þá væri velkomið að senda honum afmæliskort.

Hún hélt að þau fengju kannski nokkur auka kort send en viti menn – yfir 1.000 afmæliskort hafa hingað til borist frá næstum öllum heimsálfum og John Kromhoff er búinn að vera skælbrosandi yfir þessum ótrúlega skemmtilegu viðbrögðum.

Svo krúttlegt og skemmtilegt og frábært að sjá hversu margir eru til í að dreifa gleðinni. Við á K100 óskum honum innilega til hamingju með stórafmælið og vonum að dagurinn verði dásamlegur.

mbl.is

#taktubetrimyndir