Hlaupið einn af hápunktum sumarsins

Morgunblaðið/Jakob Fannar

Silja Úlfarsdóttir, einn fremsti hlaupaþjálfari landsins, kemur að skipulagningu miðnæturhlaups Suzuki sem haldið verður á fimmtudaginn næstkomandi. Í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar segir Silja hlaupið vera einn af hápunktum sumarsins hjá hlaupurum.

„Skráningu á heimasíðunni  lýkur sem sagt í dag en það verður hægt að skrá við afhendingu gagna á milli 16 og 19 næstu tvo daga í Laugardalshöll eftir bólusetninguna,“ segir Silja.

Veðurspána fyrir fimmtudaginn segir Silja vera góða og þar sem hlaupið er mjög stórt verða nokkrir riðlar til þess að starta hlaupurum.

„Við þorum ekki að setja á alla tíma þannig að við erum með nokkur ráshólf og það eru náttúrulega þrjú hundruð í hverju ráshólfi. Við erum að starta hvoru á sínum staðnum, 10 og 21 kílómetra hlaupi, og erum að passa að hópar blandist ekki og við erum að vanda okkur við þetta. En við erum rosalega spennt og við byrjum þarna í Laugardalnum,“ segir hún.

Prófa nýtt myndafyrirkomulag í ár

Í kringum 1.800 manns geta tekið þátt í hlaupinu og segir Silja þau vera að prófa sniðugt myndafyrirkomulag í ár.

„Þetta hefur alltaf verið rosalega skemmtileg stemning og svo er sund í Laugardalslaug eftir á til miðnættis og svona. Við verðum með ljósmyndara á brautinni, það er svona QR-kóði á hlaupanúmerinu þannig að forritið sem við erum með það les sem sagt QR-kóðann og þegar þú kemur í mark þá færðu myndir bara af þér. Við erum að prófa þetta núna og erum mjög spennt fyrir þessu,“ útskýrir hún.

Aðspurð segist Silja finna fyrir mikilli aukningu í hlaupi eftir að Covid byrjaði.

„Ég held að það finni það allir enda er fullt í öll hlaup. Það eru fleiri að hlaupa en ég væri samt til í að sjá fleiri vera búna að skrá sig inn á hlaupastyrkur og í Reykjavíkurmaraþonið og byrja að safna sem fyrst. Af því að ef við ræðum bara góðgerðarfélögin var þetta Covid-ár náttúrulega rosalegt högg fyrir þau. Og sum góðgerðarfélög eru 100% liggur við bara háð Reykjavíkurmaraþoninu,“ segir hún.

Viðtalið við Silju má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir