Hvetja krakka til útivistar

Egle Sipaviciute skólastjóri Útilífsskóla Skjöldunga.
Egle Sipaviciute skólastjóri Útilífsskóla Skjöldunga. Skjáskot/Instagram-síða Egle Sipaviciute

Egle Sipaviciute, skólastjóri Útilífsskóla Skjöldunga og skáti, mætti í morgunþáttinn Ísland vaknar og sagði frá skólanum og skátastarfinu.

„Það er útilífsskólinn sem er starfræktur í Laugarneshverfinu og er bara einn af mörgum útilífsskólum á höfuðborgarsvæðinu,“ segir Egle um Útilífsskóla Skjöldunga.

„Við erum aðeins að fara frá hnútunum og erum að hvetja krakka til þess að taka þátt í útivist sem þau myndu annars ekki fá tækifæri til að taka þátt í,“ segir hún og bætir því við að meira sé lagt upp úr að kenna krökkunum bergklifur, leiki þar sem þau vinna saman og sund sem dæmi.

Egle segir alls konar krakka mæta í Útilífsskólann og í honum séu ekki bara skátar. Nú sé búið að breyta því sem áður voru Ljósálfar og Yrðlingar í skátunum í Drekaskáta.

„Drekaskátar heitir sá aldurshópur og nú er búið að skipta öllum í svona aldurshópa. Þannig að ef maður tekur menntastigið til hliðsjónar þá er þetta bara yngsta stigið, miðstigið, unglingastig, menntaskóli og svo aðeins eldri og svo bara skátar,“ segir hún. Ástæðan fyrir breytingunni segir Egle að hafi verið til þess að sameina skátana betur og taka kynjaskiptinguna út.

Viðtalið við Egle má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir