Hreyfing á að vera lífsstíll, ekki átak

Skjáskot/Instagram-síða Gullýar

Guðlaug Ýr, gjarnan kölluð Gullý, er pílates- og barreþjálfari og stendur fyrir námskeiðinu Be Fit Pilates, sem er hópþjálfun í gegnum netið.

Ásamt því kennir hún hóptíma hjá Hreyfingu og hefur starfað hjá virtum stúdíóum í London. Ég fékk að spjalla aðeins við hana um netnámskeiðið og innblástur hennar fyrir líkamlegri og andlegri vellíðan.

Gullý hefur æft dans frá unga aldri og segir hreyfingu alltaf hafa verið stóran hluta af lífi sínu. Áhugi hennar á heilsurækt breyttist hins vegar eftir að hún átti dóttur sína en þá fór hún að hugsa meira um andlega heilsu og tengingu hennar við hreyfingu.

„Að finna æfingakerfi sem þér þykir skemmtilegt og lætur þér líða vel er lykillinn að því að gera hreyfingu að lífsstíl en ekki bara öðru átaki. Í pílates er lögð áhersla á að gera æfingarnar rétt en ekki af sem mestum hraða, krafti eða þyngd. Pílates styrkir þig innan frá og út, andlega og líkamlega. Það er þekkt fyrir að styrkja djúpvöðvakerfi líkamans og mikið er lagt upp úr því að styrkja magavöðva, bakvöðva, grindarbotnsvöðva og rassvöðva. Pílates gengur út á að auka líkamsvitund og þannig líkamsstöðu. Við náum að styrkja bak og axlir sem getur dregið úr algengum fylgikvillum eins og vöðvabólgum og verkjum í mjóbaki. Þannig náum við að tóna og móta líkamann og beita okkur rétt. Markvisst er unnið að því að lengja þá vöðva sem eru gjarnan stuttir og stífir og svo styrkja vöðva sem eru gjarnan langir og latir,“ segir Gullý og bætir við: „Markmiðið með Be Fit er að hanna skemmtilegar og fjölbreyttar æfingar sem hver sem er getur gert heima hjá sér. Það kannast allir við þessar uppteknu konur þarna úti sem vilja hreyfa sig og styrkja en finna ekki tíma til þess en hjá mér er hver æfing aðeins 30 mínútur. Æfingarnar eru byggðar á pílatesæfingakerfinu, með bland af barre, jóga, brennslu og styrktaræfingum. Ég geri æfinguna með þér allan tímann, sem er mjög hvetjandi, og sýni mismunandi útfærslur á erfiðleikastigum. Í hverri viku birtist vikuplan með fimm æfingum en meðlimir hafa einnig aðgang að yfir 100 eldri æfingum og geta að sjálfsögðu valið sjálfir hvaða æfing verður fyrir valinu hverju sinni.“

Einnig er Gullý með yfir 60 æfingar á heimasíðu sinni fyrir barnshafandi konur eða þær sem hafa eignast barn nýlega.

Skráning fer fram á heimasíðu befitpilates.co.uk/skraning og hægt er að byrja hvenær sem er. Fjórar vikur eru á aðeins 5.900 krónur og er þetta frábær leið til þess að styrkja sig á heilbrigðan máta.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir