Halda leikjanámskeið fyrir fullorðna

Guðrún Tinna Thorlacius og Margrét Leifsdóttir.
Guðrún Tinna Thorlacius og Margrét Leifsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Sem barn fannst mér alltaf ótrúlega skemmtilegt að fara á leikjanámskeið en eftir að ég fór að fullorðnast hélt ég að leikjanámskeiðskaflanum væri lokið.

Það var hins vegar misskilningur þar sem ég rakst á leikjanámskeið fyrir fullorðna nú á dögunum. Námskeiðið heitir GLAÐARI ÞÚ og eru þetta sjóbaðsnámskeið sem heilsumarkþjálfarnir Guðrún Tinna Thorlacius og Margrét Leifsdóttir standa fyrir. Ég fékk að spjalla aðeins við þær um þetta skemmtilega verkefni.

„Námskeiðin heita GLAÐARI ÞÚ því þetta eru leikjanámskeið fyrir fullorðna en við viljum leika og hafa gaman um leið og við stígum út fyrir þægindarammann og dýfum okkur í sjóinn,“ segja þær og bæta við að samkvæmt vísindum geri sjóböðin okkur glaðari.

Kaldur sjór losar endorfín

„Sýnt hefur verið fram á hvernig sjóböð í köldum sjó efla losun endorfíns. Sem sagt – losun gleði og vellíðunarhormóna eykst við það að dýfa sér í kaldan sjó. Gleðihormónin spýtast um allan líkamann og þannig er unnið markvisst að því að efla gleðina því fólk upplifir vellíðan, gleði og sigur við það að dýfa sér í sjóinn.“

Námskeiðin eru sniðin að þeim sem eru að taka fyrstu skrefin í sjóböðum og mikil áhersla er lögð á að hver og einn virði sín mörk.

„Stundum erum við lítil í okkur og þá gerum við minna en við mætum alltaf og tökum stöðuna. Fyrstu vikuna erum við að vaða í sjónum og prófa það áreiti sem er að fara úti í kuldann. Við förum mjög rólega af stað og hver og einn ræður sinni vegferð við að taka næstu skref og að synda í sjónum,“ segja þessar öflugu konur.

Næsta sjóbaðsnámskeið hefst í september en Margrét og Tinna standa líka fyrir ýmsum skemmtilegum viðburðum sem tengjast sjóböðum, heilsu og næringu. Frekari upplýsingar má finna á Facebook í hópnum „Glaðari þú – leikjanámskeið“ eða með því að senda e-mail: gladari.namskeid@gmail.com.

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir