Fólk á bíl græðir mest á þeim sem hjóla

Katrín stundar sjálf hjólreiðar, bæði í daglegu lífi og á …
Katrín stundar sjálf hjólreiðar, bæði í daglegu lífi og á ferðum sínum um landið. mbl.is/Kristinn Magnússon

Á dögunum var kynnt hjólreiðaáætlun Reykjavíkur en Katrín Atladóttir, borgarfulltrúi og hjólakona, er í forsvari fyrir nefndina. Hún ræddi við Síðdegisþáttinn um áætlunina og fyrirhugaðar breytingar.

„Þetta er fimm ára áætlun og náttúrulega mestu breytingarnar eru að núna eru sérstakir hjólastígar 32 kílómetrar í Reykjavík og eftir að þessi áætlun er komin í gildi og við erum búin að framkvæma það sem þarf að gera þá verða hjólastígar 50 kílómetrar árið 2025 og við áætlum að það verði 100 kílómetrar árið 2030 af því að við erum líka að vinna með samgöngusáttmálann og það er mikil uppbygging hjólastíga þar líka. Þannig að það er helsti munurinn og það sem við erum svolítið að leggja áherslu á í þessari áætlun er, af því að það er búin að vera svo mikil uppbygging á stígum á milli hverfa og milli sveitarfélaga og svona þessar lengri hraðari leiðir þannig að núna erum við aðeins að þétta netið innan hverfanna. Eins og sérstaklega í þessum hverfum þar sem er hjólað mikið, eins og í Vesturbæ, Hlíðum, Laugardal, Fossvogi  að gera betri hjólaleiðir þar innan hverfanna til þess að hvetja fólkið þar til þess að hjóla enn þá frekar,“ segir Katrín.

Fólk verður að geta valið ferðamáta

Katrín segir að árið 2019 hafi 7% allra ferða verið farnar á hjóli og að markmiðið sé að árið 2025 verði 10% allra ferða farnar á hjóli.

„Það þýðir ekki að 10% fólks eigi að fara allra sinna ferða á hjóli heldur að fólk geti valið þann ferðamáta sem hentar hverju sinni,“ segir hún.

Hún segir mikilvægt að fólk geti valið það að ferðast á hjóli og að þægindi og öryggi séu til staðar. Margir hjólastígar í dag séu ekki nægilega góðir.

„Hjólastígur er ekki málning á götu. Svona aðskildir hjólastígar sem eru sérstaklega fyrir hjólandi umferð eingöngu það er það sem við teljum inn í þessa tölu og þarna eru ekki taldir, það eru mikið af hjólavænum leiðum, sem teljast ekki til hjólastíga,“ segir hún og bætir við: „Ef við spáum í það að árið 2009 voru bara 2% af ferðum farnar á hjóli og nú eru 7% þannig að þetta er fáránlega mikil aukning á stuttum tíma en þetta er ótrúlega ungur ferðamáti ef svo má segja. En þetta er bara að þroskast. Fólk er að verða miklu meðvitaðra um að það sé bara alls konar fólk í umferðinni á alls konar farartækjum. Svo má ekki gleyma því að fólk sem er á bíl græðir einna mest á því að sem flestir hjóli af því að það verða minni umferðartafir.“

Viðtalið við Katrínu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

Bloggað um fréttina

#taktubetrimyndir