Fengu kætisveppi við tökur á Með allt á hreinu

Jakob Frímann Magnússon, einn af Stuðmönnum.
Jakob Frímann Magnússon, einn af Stuðmönnum. Ljósmynd/Samsett

Bíómyndin Með allt á hreinu var frumsýnd árið 1982 og vakti hún mikla lukku meðal landsmanna. Nýlega var hún tekin í gegn og bæði hljóð og mynd löguð. Jakob Frímann Magnússon Stuðmaður var á línunni í morgunþættinum Ísland vaknar og greindi þeim meðal annars frá því að flestir díalogar í myndinni hafi verið spunnir á staðnum.

„Þetta er spunninn díalogur frá A til Z. Hins vegar var mjög traust hryggjarsúla sem búið var að koma fyrir af útlærðum og afar færum handritshöfundi og kvikmyndastjóra, Ágústi Guðmundssyni,“ segir Jakob.

Jakob segir að þegar verið var að velja leikstjóra fyrir myndina hafi þeim ekki dottið til hugar að Ágúst myndi vilja taka þátt enda hafi hann verið vel virtur leikstjóri á þeim tíma.

„Við töldum ekki að hann væri tilbúinn í hopp og hí með söng- og gleðiívafi en hann var akkúrat maðurinn sem vildi gera myndina og lagði þennan þráð sem var í sjálfu sér eins konar kapphlaup kynjanna í „roadmovie“ stíl. En það hefur nú margkomið fram að hún var upphaflega bara kvikmynduð útgáfa af Tívolíplötunni og þeim karakterum og ævintýrum sem þar áttu sér stað,“ segir hann.

Matseljan setti kætisveppi í salatið

Hann viðurkennir að mikið af uppteknu efni hafi ekki verið notað í myndinni þar sem spunagleðin hafi verið svo mikil en veit þó ekki hvar það efni er eða hvort það er enn til í dag.

Spurður um sögu á bak við tjöldin viðurkennir Jakob að ein saga þoli mögulega ekki dagsljósið.

„Án þess að það kannski þoli alveg dagsljósið. Við heyrðum það fyrir nokkrum árum að matselja sem var ráðin á myndinni, sem var nú svona einn af frumhippum Íslands, hún tjáði okkur það að hún hefði tínt kætisveppi til þess að hafa í salatinu. Kannski var það einhver aflvaki stuðsins meðfram hinni tæru vinagleði. Það var verið að saxa niður kætisveppi og jafnvel einhvers konar berserkjasveppi í bland,“ segir hann.

Jakob segir nýju útgáfuna mikið betri og að margir brandarar líti nú dagsins ljós sem ekki hafi heyrst nægilega vel í frumútgáfunni.

„Það er nú skýring á því að þú hafir verið að sjá nýja brandara í gær vegna þess að það kom í þessari endurhljóðvinnslu, þá kom fram fullt af bröndurum sem heyrðust hreinlega ekki í frumútgáfunni. Bara verið faldir í frumstæðri hljóðmynd þannig að ég var að heyra fullt af nýjum hlutum sem maður var búinn að steingleyma að hefðu nokkurn tímann verið sagðir,“ segir hann.

Viðtalið við Jakob Frímann má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir