Segir Íslendinga og túrista jafn kurteisa

Geldingadalir eldgos merardalir
Geldingadalir eldgos merardalir mbl.is/Íris Jóhannsdóttir

„Fólk er alveg bæði almennilegt og kurteist, en það er svona 50/50 inn á milli þar sem forvitnin rekur túristann dálítið áfram og Íslendingarnir eru með svona ég-á-þetta-hugarfar,“ segir Bogi Adolfsson, formaður Björgunarsveitarinnar í Grindavík, í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar aðspurður hvort Íslendingarnir eða túristarnir séu stilltari við gosstöðvarnar.

Undanfarið hafa verið miklar breytingar á hrauninu og gönguleiðum verið lokað í kjölfarið.

„Maður heldur alltaf að þetta sé komið í smá ró og svona, það sé komin svona rútína á þetta, en þá ákveður náttúrulega landið bara að breyta aðeins til og setja einn hárlokk þarna niður sem flækist fyrir svolítið,“ segir hann.

Björgunarsveitin gerði nýja gönguleið að gosinu í fyrradag, einhvers konar samtengingu af leið A.

„Við vitum náttúrlega ekkert hversu lengi hún verður en annars er bara langbest, og þú sérð mest náttúrlega í dag, að fara niður í Nátthaga og vera þar á meðan fossinn er að fara þar niður og flæðið er þar,“ segir hann.

Vegna þess hvað gosið breytist hratt takmarkar það aðgengi viðbragðsaðila og segir Bogi það vera það versta. Nýja leiðin sé þó styttri og engar brekkur sem fólk þarf að klífa. Það sé því auðveld og þægileg aðkoma komi eitthvað upp á.

Viðtalið við Boga má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir