Lét sig dreyma um „staff“ á hjólaskautum

Ljósmynd/Facebook-síða Skálinn Diner

Morgunþátturinn Ísland vaknar var í beinni útsendingu frá Egilsstöðum og ræddi þar við Sigrúnu Jóhönnu Þráinsdóttur, framkvæmdastjóra 701 Hótels , fyrirtækisins sem rekur Valaskjálf, Diner, Salt og Hallormsstað. En Sigrún rekur fyrirtækið ásamt föður sínum og bróður. Það er því nóg að gera og segir Sigrún fjölskylduna ekki leggja það í vana sinn að fara auðveldu eða ódýru leiðina í neinu.

„Við yfirleitt bara förum ekki þá leið, að fara ódýru leiðina. Við förum frekar „all inn“ og það var bara allt lagt í þetta. Allar innréttingar og allt. Það tók allt sinn tíma, enda tók líka tíma að þróa þetta. Ég læt mig nú alveg dreyma um „staffið“ á hjólaskautum en ég held að vinnueftirlitið hefði kannski ekki alveg samþykkt það,“ segir hún og hlær og vísar þar með í veitingastaðinn Dinerinn.

Ljósmynd/Facebook-síða Skálinn Diner

Sigrún viðurkennir að ekki hafi verið mikið um erlenda ferðamenn undanfarið ár en segir Íslendinga hafa verið duglega að koma.

„Íslendingarnir voru mjög duglegir að koma til okkar síðasta sumar bæði á Hótel Hallormsstað og Hótel Valaskjálf og það var bara gleðilegt. Svo erum við að vonast eftir að síðsumarið verði gott líka í erlenda ferðamanninum. Það er aðeins byrjað að tikka inn en við erum náttúrlega ekki alveg á Suðurlandinu, við erum á Austurlandi, en jújú, þetta er alveg að koma,“ segir hún.

Sigrún segir þá ferðamenn sem koma til landsins með Norrænu yfirleitt ekki gista á Austurlandi í upphafi ferðar.

Hallormsstaðarskógur heillar

„Þeir gista aðallega þegar þeir eru að fara aftur. Þá koma þeir og gista nóttina áður en þeir fara í skipið. En þegar skipið kemur að þá náttúrlega keyra þeir strax og byrja á því  keyra hringinn,“ segir hún.

Þá segir hún Hallormsstaðarskóg heilla ferðamenn og að sérstaðan liggi í skóginum sjálfum.

„Það heillar alveg ótrúlega marga, þótt þeir komi frá útlöndum þar sem er skógur. Hótelið er náttúrlega alveg svakalega flott og það er alveg yndislegt að vera þar,“ segir hún.

Viðtalið við Sigrúnu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir