Halda í kjarnann á LungA

Björt Sigfinnsdóttir og Sesselja Hlín Jónasardóttir frá listahátíðinni LungA.
Björt Sigfinnsdóttir og Sesselja Hlín Jónasardóttir frá listahátíðinni LungA. Skjáskot

Björt Sigfinnsdóttir og Sesselja Hlín Jónasardóttir frá listahátíðinni LungA mættu í VÖK til þeirra Loga Bergmanns og Sigga Gunnars í Síðdegisþættinum og sögðu þeim frá hátíðinni í ár sem haldin verður dagana 14.-17. júlí á Seyðisfirði.

„LungA er listasmiðjumiðuð listahátíð. Hún er byggð upp í kringum viku langar listasmiðjur og ungmennaskiptiverkefnið sem við vinnum með er Erasmus + og svo eru alls konar viðburðir seinnipartinn og á kvöldin og stór veisla um lokahelgina,“ útskýra þær.

Hátíðin verður haldin í tuttugasta og annað sinn í ár og segja Björg og Sesselja hana ávallt vel sótta. Undir venjulegum kringumstæðum séu rúmlega 600 manns á Seyðisfirði, þar sem hátíðin er haldin, en þá daga sem listahátíðin er dvelji um 3.000 manns í bænum.

Björg og Sesselja segja hátíðina alls enga útihátíð heldur listræna gleðihátíð. Hún verði með minna sniði í ár en vanalega.

„En við svona erum að halda í kjarnann þannig að við verðum með smiðjur og listasýningar út vikuna og endum síðan á tónleikum á laugardegi. Hún er minni að því leytinu til að hún verður styttri en þeir dagar sem hátíðin fer fram verða troðfullir af skemmtilegum viðburðum og í staðinn fyrir að vera viku til tíu daga eins og hún hefur verið undanfarin ár ætlum við að vera í fjóra daga í ár,“ segja þær.

Viðtalið við þær Björgu og Sesslju má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir