Aðsóknin sigur miðað við Covid-ár

Það var fallegt um að litast við Vök baths í …
Það var fallegt um að litast við Vök baths í vikunni.

„Ég kannaðist við eina sem ég hafði unnið með áður, en ég þekkti nánast engan hérna á Egilsstöðum,“ segir Aðalheiður Ósk Guðmundsdóttir framkvæmdastjóri Vök Baths sem tók við stöðunni í byrjun árs 2021.

„Ég keyrði ein að vetri til á jeppa og það var svona pínu „scary“ sko en ferðaþjónustuhjartað í mér langaði svo mikið til að fara að taka Austurland á annað „level“ og koma fólki hingað. Þetta er svo fallegur og góður staður til þess að vera á,“ segir hún enn fremur.

Aðspurð segir Aðalheiður að fólk sem býr á Austurlandi tali alltaf um svæðið sem eina heild.

„Já ég er algjörlega þar, samvinna skiptir hrikalega miklu máli. Það er bara eitt það mikilvægasta. Því ef fólk fær góða heildarupplifun af Austurlandi vill það koma aftur. Þannig að við verðum öll að vera saman í þessu,“ segir hún.

Undanfarið ár hefur Vök Baths aðallega verið rekið á þeim Íslendingum sem heimsótt hafa staðinn og segir Aðalheiður það hafa gengið vonum framar.

„Heimamenn eru okkar menn og við gerum vel við þá með árskortum og það skiptir máli að þeir tali vel um okkur og gangi vel. En við fengum sko yfir 60 þúsund manns í fyrra. Áætlunin gerði ráð fyrir 50 þúsund þannig að það var algjör sigur miðað við Covid-ár,“ segir hún.

Viðtalið við Aðalheiði má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir