„Manni er svolítið kippt út úr lífinu“

Viktoría Jensdóttir.
Viktoría Jensdóttir. Skjáskot/Úr auglýsingu Ljóssins

„Ein af fjórum og ótrúlega þakklát fyrir að hafa fengið að gefa smá til baka vegna þess að Ljósið er svo sannarlega búið að hjálpa mér. Þannig að ég var mjög þakklát fyrir að fá að taka þátt í þessu. Ég greindist með brjóstakrabbamein í desember og fór í aðgerð í janúar, þá kom í ljós að það var aðeins búið að dreifa sér þannig að ég er í meðferðum núna. Þetta er bara svona pakki sem maður lendir í. Manni er svolítið kippt út úr lífinu,“ segir Viktoría Jensdóttir, ein af fjórum þátttakendum í nýrri auglýsingaherferð Ljóssins, í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar.

Viktoría segir Ljósið hafa hjálpað sér og fjölskyldu sinni gríðarlega síðan hún greindist með krabbamein og að þjónustan sé í raun margþætt.

„Í fyrsta lagi þegar maður greinist í svona veikindum þá er náttúrlega rosalega mikil óvissa og manni líður illa og í Ljósinu er boðinn alls konar stuðningur fyrir það. Það er líka að manni er kippt út úr lífinu og vinnunni og maður svona, hvað á maður að gera á daginn? Ég var að segja um daginn: „Já ég er bara í fríi ég veit ekkert hvað ég á að gera.“ Og þá var bara: „Ertu ekki í veikindaleyfi, það er nú ekki frí.“ Þótt maður sé slappur þarf maður að hafa einhvern tilgang. Og í Ljósinu getur maður mætt og það er alls konar í boði fyrir mann og svo það þriðja; maður hittir jafningja sína. Og maður lærir svo mikið af öðrum konum og fólki sem hefur greinst með krabbamein og maður þarf ekki að finna upp á hlutunum sjálfur,“ segir hún.

Yngri karlmenn mættu hugsa betur um sig

Sólveig Kolbrún Pálsdóttir, markaðs- og kynningarstjóri Ljóssins, segir að það sé gaman að segja frá því að karlmenn séu farnir að hugsa betur um sjálfa sig þegar þeir greinast.

„Það er nefnilega gaman að segja frá því að okkur hefur tekist vel til og karlarnir eru farnir að hugsa um sjálfa sig þegar þeir greinast, þeir eldri sérstaklega. Þeir yngri mættu nú aðeins hugsa betur um sig en það gengur bara rosalega vel hjá okkur að ná til eldri karlanna,“ segir hún og bætir við: „Þá meina ég þegar ungir karlmenn greinast með krabbamein þá eru þeir ekki eins líklegir til þess að sækja endurhæfingu, líklegri til þess að halda áfram störfum samhliða sínum meðferðum, en ættu svo sannarlega að mæta í Ljósið til þess að fá endurhæfingu. Það er nokkuð sem við þurfum kannski að draga fram betur að Ljósið er endurhæfingarmiðstöð og þú kemur til okkar og færð þjónustu hjá fagaðilum sem margir hverjir eru með margra ára háskólamenntun nákvæmlega í þessu.“

Viðtalið við þær Viktoríu og Sólveigu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir