Seiglur hefja siglingu í kringum landið

Ljósmynd/Raymond Hoffmann

Hópur kvenna sem kallar sig Seiglurnar heldur af stað í hringferð í kringum landið á sunnudaginn kl. 15 frá Reykjavík.

Markmið ferðarinnar er að efla konur í siglingum og vekja athygli á umhverfi hafsins. Siglingaklúbburinn Brokey hefur efnt til fjölskyldusiglingar á sunnudaginn og er áætlað að fjöldi báta muni fylgja skútu Seiglanna, Esju, út á sundin.

Lagt er af stað frá Ingólfsgarði á bakvið Hörpuna. Stefnan verður tekin á Ísafjörð en um borð er sex manna föst áhöfn ásamt fjórum konum sem sigla á Ísafjörð þar sem aðrar fjórar Seiglur taka þeirra pláss fyrir næsta legg ferðarinnar.

Ljósmynd/Raymond Hoffmann

Stoppað verður á Ísafirði, Akureyri, Húsavík, Eskifirði, Djúpavogi og í Vestmannaeyjum og er áætlað að ferðin taki um þrjár vikur. 29 þátttakendur voru valdir úr hópi yfir hundrað kvenna sem láta siglingar og umhverfismál sig varða.

Það verður hátíðarbragur hjá Seiglunum alla helgina en á laugardaginn býðst gestum og gangandi að koma við í Esju, sem er 50 feta skúta, á milli kl. 13 og 15. Nánari upplýsingar veitir leiðangursstjórinn Helena Óladóttir í síma 6932948.

Hægt er að fylgjast með Seiglunum á samfélagsmiðlunum Facebook og Instagram.

mbl.is

#taktubetrimyndir