Leyfði sér ekki að verða þreytt

Skjáskot/Instagram-síða Ragnheiðar

„Mér finnst það bara sjúklega skemmtilegt og hefur bara fundist það núna í svolítið mörg ár. Til að byrja með hljóp ég ein, svo var ég svo heppin að detta inn í hlaupahóp ÍR sem var frábær félagsskapur og hvatti mig til þess að hlaupa lengra og meira og svo fór ég að færa mig svolítið út af malbikinu og endaði á að hlaupa með ótrúlega skemmtilegu samfélagi náttúruhlaupara og þar er bara svo skemmtilegt fólk og þetta er svo ótrúlega gaman,“ segir Ragnheiður Sveinbjörnsdóttir í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar.

Ragnheiður kom fyrst kvenna í mark í hlaupinu Hengill Últra sem fór fram síðustu helgi og hljóp hún í um 25 klukkustundir og fór 161 kílómetra.

„Ég gerði mér enga grein fyrir því hvað þetta myndi taka mig langan tíma. Við máttum vera held ég 35 klukkustundir að hlaupa þetta. Af því að ég hef ekki farið þessa vegalengd áður þá vissi ég bara ekkert hvað þetta myndi taka langan tíma. Þannig að þetta var rosa bara að fara blint út í þetta en um leið þá hætti ég að horfa á þetta, af því að ég þekki þetta svæði ég hef hlaupið á þessu svæði þannig að ég hætti að hugsa um tíma og hugsaði bara að klára að ákveðnum stöðum. Það var lang best að sjá þetta fyrir sér þannig,“ segir hún.

Ragnheiður hefur áður hlaupið 100 kílómetra hlaup og bætti svo við sig 130 kílómetrum í litlum skrefum.  

„Þetta er svo skrítið, maður verður einhvern vegin algjörlega ósjálfrátt rosalega innstilltur á það sem maður er að fara að gera og ef að það er svona sirka allt í lagi að þá leyfir maður sér einhvern vegin ekki að verða allt of þreyttur eða að fá einhverjar svona erfiðar tilfinningar,“ segir hún.

Viðtalið við Ragnheiði má nálgast í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir