Ástríðan liggur í að hjálpa fólki

Bergsveinn Ólafsson.
Bergsveinn Ólafsson.

„Ég myndi segja það, að ef við förum aðeins í djúpar pælingar, þá er það svona minn tilgangur. Það er að hjálpa hverjum og einum einstaklingi að verða sá einstaklingur sem hann getur orðið. Út af því að ég trúi því svo mikið að þegar við einblínum á það að hámarka það sem í okkur býr að þá smitum við út frá okkur og þá verður fjölskyldan á betri stað eða vinnustaðurinn eða vinir okkar og þá verður samfélagið á betri stað og heimurinn verður á aðeins betri stað heldur en hann var í gær,“ segir Beggi Ólafs í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar.

Beggi hefur undanfarið unnið að því að hjálpa fólki að verða besta útgáfan af sjálfum sér. Hann segir aðspurður að það sé erfitt að ætla sér að gera heiminn að betri stað en að það byrji þó allt hjá hverjum og einum.

„Ég held að maður verði alltaf einhvern vegin stöðugt að velja hvað maður tekst á við og þá held ég að það sé lykilatriði að byrja nógu lágt,“ segir hann.

Hefur breyst mikið á síðustu árum

Sjálfur segist hann hafa breyst rosalega mikið á síðustu árum en áður en hann fékk ástríðu fyrir það að hjálpa öðru fólki spilaði hann fótbolta í tuttugu og tvö ár.

„Maður lærði ótrúlega mikið á því að vera í fótbolta og það er grunnur sem maður býr rosalega mikið að. Það kennir manni rosalega mikið bara að sigra og tapa og mistök og að yfirfæra það yfir á annað. En eftir að ástríðan fór þaðan þá færðist hún yfir í að hjálpa öðru fólki,“ segir hann.

Í nóvember á síðasta ári gaf Beggi út bókina 10 skref í átt að innihaldsríku lífi.

„Þar gerði ég mitt besta í að taka alla mína þekkingu og lærdóm úr sálfræði náminu sem ég hef farið í og minn bara lærdóm í lífinu, alla fyrirlestrana og allar pælingarnar sem ég hef pælt í og kom því í bók. Undirliggjandi þema í bókinni er svona að axla ábyrgð á eigin líf, að fara yfir þín vandræði og þín markmið og tilgangsríkt líf, efla samskipti, og bara svona að taka eftir því góða í tilverunni og bara allskonar. Í rauninni stefna að innihaldsríku lífi en ekki kannski beint hamingju. En hamingjan kemur sem hliðarafurð af tilgangsríku lífi,“ segir hann.

Viðtalið við Begga má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir