„Það er einstakt að verða eitt með vatninu“

Skjáskot/Facebook-síðu Flothettu

Stundum líður okkur eins og við séum alveg á kafi í alls konar stressi og þá er tilvalið að fara á flot. Ég fékk að ræða við fyrirtækið Flothettu sem stendur fyrir svokölluðum Flotmeðferðum.

Flotmeðferð er heilandi ferðalag í þyngdarleysi vatnsins þar sem þátttakendum gefst tækifæri til að ná dýpra stigi slökunar. Flotmeðferð felur í sér líkamsmiðaða meðhöndlun í formi mjúks flæðis í vatninu auk þess sem þátttakendur þiggja heilandi snertingu og nudd á meðan flotið er. Allt miðast þetta að því að hreyfa við staðnaðri orku, losa út neikvæð áhrif streitu og næra líkama og sál.

Flotmeðferðir eru alltaf í umsjón fólks sem hefur þjálfun og reynslu af flot- og vatnsmeðferðarvinnu. Meðferðin miðar að því að leiða viðkomandi inn í djúpt slökunarástand í vatninu og því afar mikilvægt að sá sem flýtur upplifi sig í öruggum höndum fagfólks sem hefur þekkingu og visku til að meta ólíkar þarfir hvers og eins og sé fær um að sýna þá umhyggju og traust sem fólk þarf að finna til að upplifa þá fallegu opnun og losun sem á sér stað í djúpri flotmeðferð.

„Dagana 10. – 13. júní höldum við í annað sinn FLOT FEST – röð heilandi vatnaviðburða með mismunandi þemu, það má velja staka viðburði eða koma á alla,“ segja forsvarsmenn Flothettu og nánari upplýsingar má finna á Facebook-viðburðinum Flotmeðferð.

Einnig eru fleiri viðburðir væntanlegir, meðal annars í VÖK Baths á Austurlandi 23. og 24. júní og í Sundlaug Akureyrar þann 7. júlí næstkomandi. Flothetta býður svo upp á fasta tíma í flotmeðferð í Reykjavík alla þriðjudaga og fimmtudaga kl. 20:00 í Mörkinni, Suðurlandsbraut 64.

Þau segja heilandi mátt vatnsins ásamt nærandi samveru í vatninu vera það besta við Flot. „Það er einstakt að verða eitt með vatninu, gefa eftir og upplifa hvernig slökun í þyngdarleysinu bræðir burt alla spennu. Næring fyrir líkama og sál.“

„Það er gaman að segja frá því að Flotið og flotmeðferðir eru al-íslensk hugmynd og nýsköpun á sviði heilsu. Við sjáum fyrir okkur að Ísland geti orðið fremst í heimi á sviði vatnsmeðferða. Indland gaf heiminum jóga, Ísland ætlar að færa heiminum flot!“ segja þau að lokum.

mbl.is

#taktubetrimyndir