„Ekki eins erfitt og það hljómar“

Ljósmynd/ Mummi Lú

„Það eru til nokkur svör við þessari spurningu og ekkert þeirra er einfalt og eitt svar sem að menn oft í fjallamennsku eru spurðir um þá svara menn svolítið á standart hátt og segja; „Ef þú þarft að spyrja þá muntu ekki skilja svarið,““ segir Bjarni Ármannsson aðspurður út í það hvers vegna hann ákvað að hlaupa 106 kílómetra í hlaupinu Hengill Últra síðustu helgi.

„En ef maður kafar aðeins í þetta þá er þetta svo sem bara eins og allt annað sem maður tekur sér fyrir hendur í lífinu. Maður setur sér einhver markmið og stefnir að einhverju og lítur svo á að þegar maður nær markmiðunum að þá er maður búinn að ná árangri og þá er maður svolítið ánægður með sjálfan sig og svo er þetta allt í einhverjum litlum skrefum þetta líf sem að gengur svona trítlar einhvern vegin áfram og fyrir mig þá var þetta eitt af markmiðunum og ég held að þetta sé búið að vera eitt af áramótaheitunum mínum allavegana í sjö til átta ár að hlaupa sem sagt 100 kílómetra hlaup,“ segir hann.

Bjarni segist í viðtali við Síðdegisþáttinn hafa notið hverrar mínútu í hlaupinu. Veðrið hafi verið týpískt íslenskt veður með örlítið sýnishorn af öllu og hann kláraði hlaupið á sextán og hálfum tíma.

Bjarni stoppaði tvisvar sinnum í hlaupinu. Í fyrsta skiptið fékk hann sér banana og vatn en í seinna skiptið borðaði hann tvo diska af kjötsúpu. Hann segir það ekki hafa verið erfitt að halda áfram eftir stoppinn.

„Það er í rauninni ekki eins erfitt og það hljómar. Það er ekki eins og maður sé útbelgdur,“ segir hann.

Hann viðurkennir þó að eftir fyrstu þrjátíu kílómetrana hafi líkaminn byrjað að senda honum skilaboð um að hætta.

„Sko þetta er oft eftir svona 30 kílómetra þá er líkaminn, hann sendir ákveðin skilaboð eftir svona tvo, þrjá, fjóra tíma svona bara; „Heyrðu hættu þessari vitleysu, þetta er komið gott.“ Það flaug í gegnum hugann minn svona ætti ég kannski bara að fara einn hring er þetta kannski bara nóg sko,“ segir hann.

Viðtalið við Bjarna má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir