Sýna fjölbreytileika listarinnar

Skjáskot/Facebook-síða Mutt Gallerý

Lífið er stútfullt af alls kyns list, fjölbreyttum víddum og ólíkum sjónarhornum og listin býður upp á svo margt skemmtilegt.

Hinn 6. júní var opnuð listsýning í MUTT-galleríi, Laugavegi 48, undir nafninu Sumar 2021: 21 listamaður og er hér á ferðinni spennandi sumar- og sölusýning. Ég spjallaði við Júlíu Marinósdóttur, eiganda MUTT, og fékk að heyra smá frá sýningunni.

Júlía segir sýninguna djarfa því þau tefli saman 21 ólíkum listamanni bæði í aldri og miðli og til sýnis verður 91 verk.

„Okkur finnst geggjað að nota sumarið í að sýna fjölbreytileika listarinnar því það er frískandi fyrir sumarið og sérstaklega núna þegar covid er að ganga yfir,“ segir Júlía.

Galleríið MUTT hefur það að markmiði að auka flóru myndlistar í Reykjavík með sýningum eftir fjölbreyttan hóp myndlistarmanna auk þess að styðja við starfsemi þeirra.

Ég hlakka mikið til að gera mér ferð í galleríið og upplifa 91 ólíkt listaverk frá alls kyns listamönnum. Sýningin stendur til 8. ágúst og ég mæli með því að skella sér.

mbl.is

#taktubetrimyndir