Stærð segir ekki til um virði fólks

Camilla Rut.
Camilla Rut. Skjáskot/Instagram-síða Camillu

„Ég hef nefnilega verið þar, að ég forðaðist að jafnvel meira að segja að fara út úr húsi ómáluð og setja á mig filter líka á Instagram. Þetta er eitthvað svona sem ég er að kynnast og leyfa sjálfri mér að fara út í núna,“ segir Camilla Rut í viðtali við morgunþáttinn Ísland vaknar þegar umræðan snerist um það að konur eigi að geta verið með engan farða og að líða vel í eigin skinni.

Sjálf segist Camilla reglulega fara út án farða enda hafi hún aldrei gefið sjálfa sig út fyrir að vera eitthvað sem hún er ekki.

Síðan Camilla gaf út fatalínu sína fyrr á þessu ári hefur hún verið að velta því mikið fyrir sér hvað konum þyki erfitt að spyrja hana út í fastastærðir.

„Maður náttúrulega er í beinum samskiptum við fullt af fólki í gegnum Instagram á hverjum einasta degi sem manni þykir gríðarlega vænt um og það er alltaf verið að senda, eða maður fær mjög oft frá konum sem eru kannski að sjá mann í einhverjum flíkum og maður er að sýna frá og segja og svona og það er verið að spyrja „hvaðan er þessi flík og hvar get ég keypt þetta og fyrirgefðu ef þér finnst þetta óþægilegt en má ég spyrja í hvaða stærð þú ert?“ Er þetta eitthvað tabú spurning? Og þá fór ég að hugsa þetta lengra, það er svo mikið oft eitthvað óþægilegt að tala um fatastærðir, þyngd, aldur og svo meira að segja var mér kennt það þegar ég var lítil að veski kvenna eru bara svona heilagt system sem enginn má sjá ofan í,“ segir hún.

Aðspurð út í það hvort henni þyki sjálfri óþægilegt að vera spurð út í þyngd eða stærð svarar Camilla því neitandi.

„Stærð er bara stærð, stærð er bara tala, þetta er bara númer. Þetta segir ekkert um þig eða þitt virði. Hvað stendur á miðanum sem stendur á hnakkanum á þér,“ segir hún.

Viðtalið við Camillu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir