Fagnar íslenskunni á Disney +

Leikarinn Jóhannes Haukur.
Leikarinn Jóhannes Haukur. Mynd/Haraldur Jónasson-Hari

„Menntamálaráðherra fékk staðfest frá honum Hans sem er Dani og er yfir norðurlandadeild Disney að þeir væru í þessum töluðu orðum að hlaða inn öllum íslensku titlunum bæðu hljóði og textum og þetta verður komið fyrir mánaðarlok,“ segir Jóhannes Haukur í samtali við Síðdegisþáttinn en hann fagnar því þessa dagana að Disney + skuli vera að setja bæði íslensku talsetninguna og textana inn á streymisveituna.

„Málið er að við hefðun sennilega á endanum fengið þetta, vonandi, en ég held að þessi pressa sem kom frá, sko þeir náttúrulega setja í gang þessa streymisþjónustu Disney + þar sem þeir ætla að hafa allt sitt efni og auðvitað eru einhver svona tæknileg úrlausnar atriði að setja allar hljóðskrár við allar útgáfur sem eru til. Ég meina þeir talsetja á fjörutíu og eitthvað tungumálum auðvitað út um allan heim og þeir eiga allar þessar skrár og það er ekki einu sinni allt komið inn. Það er ekki eins og við séum síðust í röðinni. En það sem gerist svo er að þeir henda öllu inn á original tungumálinu bara ensku, þetta fer í loftið og íslenski markaðurinn verður náttúrulega mjög sár út í þetta,“ útskýrir Jóhannes.

Jóhannes segir að fullt af Íslendingum hafi óskað eftir talsetningunni, hann hafi svo blandað sér inn í umræðuna og að lokum hafi menntamálaráðherra sent bréf.

„Ég held að þetta hafi virkilega farið á skrið þegar menntamálaráðherra sendir þeim bara formlegt bréf, það er hlustað þegar ríkisstjórnir eru farnar að tjá sig,“ segir hann.

Nú starfa því tveir danskir starfsnemar við það að hlaða inn skránum og sjá til þess að þær passi.

„Það er eitthvað frábært við það að þetta skuli vera Danir af öllum þarna sko,“ segir hann.

Viðtalið við Jóhannes má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir