Kúpla sig út frá daglegu amstri og áreiti

Skjáskot/Instagram-síða metimeiceland

Me Time Iceland er núvitundar- og jóga-viðburðafyrirtæki stofnað af vinkonunum Guðnýju Vilhjálmsdóttur, Katrínu Sif Einarsdóttur og Þorgerði Ólafsdóttur. Ég fékk að spjalla við þær um þetta áhugaverða verkefni.

Vinkonurnar þrjár eru allar jógakennarar og saman byrjuðu þær að hafa litlar svokallaðar „me time“-helgar fyrir þær sjálfar þar sem þær stunduðu jóga og hlúðu að sér andlega og líkamlega. Út frá því kviknaði hugmyndin að stofna fyrirtæki með einmitt það að leiðarljósi og þannig varð Me Time til.

„Við vorum sannfærðar um að það væri markaður fyrir því að fá að komast í sveitasæluna og kúpla sig út frá daglegu amstri og áreiti. Við höfum tengingar í veiðihús í Borgarfirði og þótti tilvalið að taka það á leigu yfir veturinn til að halda viðburði yfir nokkrar helgar. Við erum með skipulagða viðburði og bjóðum einnig upp á einkaviðburði ef þess er óskað,“ segja þær og leggja áherslu á andlega og líkamlega vellíðan í helgarferðunum.

Þorgerður er matreiðslumaður og sér um matinn sem er í boði og ákváðu þær í sameiningu að hafa allan mat vegan. Iðkendur eru hvattir til að slökkva á símanum sínum og vera í algjöru tímaleysi meðan á viðburðinum stendur. Dagskráin inniheldur einnig tónlist, kakóseremóníu, útiveru o.fl. Þær segja viðburðina henta öllum og það er engan veginn nauðsynlegt að hafa stundað jóga áður.

Eins og er starfar Me Time bara yfir vetrarmánuðina og nýjar dagsetningar koma inn á heimasíðuna metimeiceland.com þegar nær dregur hausti. Einnig er hægt að fylgjast með á Facebook og Instagram undir Me Time Iceland. Enn fremur er stefnan sett á að hafa „pop-up“-viðburði víðar um landið í framtíðinni. Frábær leið til þess að hægja á sér, safna orku og njóta í góðum félagsskap.

mbl.is

#taktubetrimyndir