„Hér er ég enn þá að selja gervityppi“

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fyrir framan kirsuberjatréð.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush fyrir framan kirsuberjatréð. mbl.is/Árni Sæberg

„Mig langaði að gera eitthvað öðruvísi og spennandi og sá gat á markaðnum og ákvað að prófa þetta og svo gekk þetta bara rosa vel og hér er ég enn þá að selja gervityppi,“ segir Gerður Huld Arinbjarnardóttir, betur þekkt sem Gerður í Blush, í viðtali við Síðdegisþáttinn.

Gerður byrjaði að selja kynlífstæki fyrir tíu árum og segir hún mikinn mun á viðhorfi fólks í dag en þegar hún byrjaði.

„Í dag er þetta orðið miklu meira normal og fólki finnst þetta ekki eins mikið feimnismál og áður. Svo finnst mér þetta líka bara eðlilegra. Fyrst þegar ég var að byrja fannst mér þetta alveg pínu skrítið sko. Ég átti svona alveg pínu erfitt með að segja sum orðin. En svo venst þetta,“ segir hún.

Gerður segir heilbrigt kynlíf vera mikilvægt fyrir andlega og líkamlega heilsu fólks og segist vera stolt af því að vinna við það að fræða fólk um kynlíf og selja kynlífsvörur.

„Ég myndi segja að ég væri meira í heilbrigðisgeiranum heldur en eitthvað annað af því að þetta eru bara heilbrigðisvörur, þetta eru svona lýðheilsuvörur. Þetta hjálpar fólki að halda geðheilsu. Það hefur sýnt sig og rannsóknir sýna fram á það að heilbrigt kynlíf er bara mjög jákvætt fyrir andlega heilsu og líkamlega heilsu líka, þannig að af hverju geta kynlífstæki ekki vera partur af þessu?“ segir hún.

Viðtalið við Gerði má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir