Átti að kæra hana fyrir innflutning á ólöglegum vopnum

Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush.
Gerður Huld Arinbjarnardóttir eigandi Blush. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gerður Huld Arinbjarnardóttir, betur þekkt sem Gerður í Blush, svaraði tuttugu ógeðslega mikilvægum spurningum í Síðdegisþættinum hjá þeim Loga Bergmann og Sigga Gunnars. Þar kom meðal annars í ljós að eitt sinn átti að kæra hana fyrir innflutning á ólöglegum vopnum.

„Ég hef einu sinni lent í því að það átti að kæra mig fyrir innflutning á ólöglegum vopnum og það var ágætislífsreynsla,“ segir Gerður.

Lögreglan hringdi í Gerði til þess að tilkynna henni kæruna en það vildi til að á sama tíma var Gerður einmitt að taka upp hlaðvarpsþátt og því á hún símtalið til á upptöku.

„Hann tilkynnir mér það að það ætti að kæra mig fyrir innflutning á ólöglegum vopnum af því ég var að flytja inn svona loðin rauð handjárn fyrir Blush. En svo fór það ekkert lengra,“ útskýrir hún.

Gerður fékk handjárnin aldrei í hendurnar og segist ekki vita hvað hafi verið gert við þau.

„Þau fóru bara í eitthvert niðurrif eða ég veit ekki hvað var gert við þau. Það er öryggisvinkill á þessu og þetta er loðið, rautt. Fyrir utan það þá er þetta úr áli svo það er mjög auðvelt að beygja þetta. Það var líka pínu hlegið að þessu, að lögreglan og tollstjóri hafi gefið sér tíma í að senda inn þessa kæru sko,“ segir hún og hlær.

Ætlaði sér alltaf að vinna í heilbrigðisgeiranum

Þá segist Gerður alltaf hafa ætlað sér að vinna innan heilbrigðisgeirans þegar hún yrði stór og viðurkennir að leyndir hæfileikar hennar liggi meðal annars í því að hún sé með sjúklega liðuga putta, sé góð í að tala og kunni að syngja.

Spurð út í gælunafn fyrir utan Gerður í Blush segist Gerður eiga tvö svoleiðis.

„Besta vinkona mín hún kallar mig oft Gellí og þegar ég var lítil þá kölluðu systur mínar mig Geddu greddu og síðan endaði ég í því að selja kynlífstæki. Þannig að þetta er kannski bara þeim að kenna,“ segir hún.

Tuttugu ógeðslega mikilvægar spurningar með Gerði má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir