„Það þarf allt að vinna saman til þess að manni líði vel“

Ljósmynd/Ingibjörg Torfadóttir / itorfa.com

Rvk Ritual er vellíðunarfyrirtæki sem heldur námskeið og netnámskeið ásamt því að framleiða og selja ýmsar vörur tengdar ritúölum í vefverslun sinni. Rvk ritual var stofnað af Evu Dögg Rúnarsdóttur, fatahönnuði og jógakennara, og Dagnýju Berglindi Gísladóttur, ritsýru og fyrrum framkvæmdastjóra Gló, en hún er einnig kennari í hugleiðslu og djúpöndun. Ég fékk að spjalla aðeins við þær um þetta spennandi vellíðunarfyrirtæki.

Eva og Dagný höfðu báðar unnið lengi í alls kyns stjórnunarstörfum og fannst eins og þær þyrftu þá að „vera í skápnum“ með „heilsunördismann“ og jógað. Þær sáu marga samstarfsmenn og -konur fara í kulnun einungis vegna þess að fólkið fyllti ekki á sinn tank jafnóðum.

Því þótti þær vanta vettvang þar sem sjálfsrækt væri sett í fallegan búning, sett fram á smá „tísku“-hátt og stofnuðu í kjölfarið Rvk Ritual. Markmiðið var að gera lífsstíl á borð við hugleiðslu, rituala, jógaheimspeki, djúpöndun, jógaæfingar, sjálfsvinnu o.fl. aðlaðandi fyrir breiðari hóp.

Þessar öflugu konur nálgast heilsu heildrænt, til dæmis finnst þeim að hugleiðsla og djúpöndun ættu að vera taldar jafn sjálfsagðar og að taka vítamín. Markmiðið er að ná til sem flestra.

„Það þarf allt að vinna saman til þess að manni líði vel en þú þarft samt ekki að hætta í vinnunni þinni. Við viljum að bankastjórar, tískudrósir og allt þar á milli séu að rækta sig líkamlega og andlega.“

„Í Covid sló netnámskeiðið okkar, Self Mastery, í gegn og erum við að halda það í tíunda sinn í júní. Self Mastery er fjögurra vikna netnámskeið fyrir huga, sál og líkama haldið af okkur, stofnendum Rvk Ritual, og gestakennurum. Við þekkjum það báðar að vera mæður og á sama tíma í krefjandi starfi sem leiðir til þess að maður gleymir sjálfum sér. Þess vegna gerðum við netnámskeið sem gefur aðhald en á sama tíma frelsi til að gera verkefni, hugleiðslur og fleira á eigin tíma. Á námskeiðinu eru ýmsir þættir heildrænnar heilsu sameinaðir sem hjálpa nemendum að skilja sig og sínar þarfir betur og setja þær þarfir í forgang. Við skoðum andleg málefni, kennum mismunandi hugleiðslutækni og djúpöndun, jógaheimspeki með nýjum vinkli, mjúka hreyfingu, markmiðasetningu, mataræði og daglegar venjur. Markmiðið er að nemendur finni aukna orku, útgeislun og vellíðan í lok námskeiðs,“ segja þær að lokum.

Námskeiðið hentar bæði byrjendum í hugleiðslu sem og lengra komnum og segja þær þetta fullkominn boðskap til að taka með sér inn í sumarið. Skráning fer fram á rvkritual.com og hefst námskeiðið 10. júní næstkomandi.

mbl.is

#taktubetrimyndir