Ljósmyndasýning í ​Laugardalslauginni

Ljósmynd/Michael Ramond Smith

Sund er eitt það allra besta við tilveruna. Nú á dögunum opnaði afar áhugaverð og skemmtileg ljósmyndasýning í Laugardalslauginni og verður að segjast mjög við hæfi að til sýnis séu myndir af sundlaugum!

Ljósmyndarinn og sund-áhugamaðurinn Michael Ramond Smith á heiðurinn af þessari sýningu sem nefnist Speglun úr Laugunum og sýnir ljósmyndir af ólíkum sundlaugum. Ég ákvað að gera mér ferð á sýninguna og fékk að spjalla aðeins við Michael í kjölfarið.

Sýningin býr yfir u.þ.b. 22 ljósmyndum og segir Michael það hafa verið erfitt að velja hvaða myndir yrðu til sýnis þar sem hann á svo margar. Í næstum fjóra mánuði á síðasta ári ferðaðist hann til yfir 40 sundlauga um allt Ísland og myndaði þær.

Rútínan var svipuð á hverjum degi í þessari sundlauga-ævintýraferð þar sem hann fór í nýja sundlaug, baðaði sig og synti og skoðaði hvað væri áhugaverðast að mynda. Síðan fékk hann að mynda sundlaugarnar eftir lokun. Michael segir ótrúlega skemmtilegt að mynda sundlaugar þar sem allt getur breyst svo hratt, háð vindátt og birtu. Hann vinnur einnig sem starfsmaður í Laugardalslaug og segja má að sundlaugarnar eigi stóran part í hjarta hans. Myndirnar eru dásamlegar og fjölbreyttar, í ólíkum litum og formum.

Michael tileinkar sýningunni fastagestum Laugardalslaugar. Hann kemur frá Kaliforníu og segir að þar sem hann er langt frá heimaslóðum og langt frá kunnuglegum andlitum hafa fastagestir laugarinnar orðið nýja fólkið sem er honum kunnugt.

Það sem honum líkar best við vinnuna sína er að sjá það á hverjum degi. Kunnugleg andlit geta svo sannarlega veitt manni hlýju í hjartað. Ég mæli eindregið með því að skella sér á þessa ljósmyndasýningu í Laugardalslauginni og fara svo í hressandi sund á eftir.

Ljósmynd/Michael Ramond Smith
mbl.is

#taktubetrimyndir