Nammi, nostalgía, skartgripir og góðvild

Ljósmynd/Aðsend

Eins og ég hef áður sagt ykkur þá hef ég svo gaman af því að fylgjast með skapandi fólki gera frumlega hluti.

Ég rakst á skartgripahönnuðinn Erlu Gísladóttur sem frumsýndi nýja skartgripalínu í gær, þann 2. júní, og fyrir þessa línu fær hún innblástur frá nammi og nostalgíu. Ég spjallaði aðeins við Erlu og fékk hana til þess að segja mér frá þessu skemmtilega verkefni.

Nýja skartgripalínan ber nafnið Bland í poka og segir Erla hana vera algjörlega innblásna af sjoppuferðum síðustu aldar og nostalgíunni sem einkennir þær. Við erum að tala um ljósbleika sleikjóa, falleg hálsmen sem minna á hlaupsnuddur, silfurhringa með lakkrísformi og fleira sætt og skemmtilegt.

Erla segist tengja við gömlu grænu plast-nammipokana frá síðustu aldamótum og var draumurinn að geta afgreitt fyrstu pantanirnar í slíkum pokum. Hún varð því ótrúlega glöð þegar Tinna Royal, listakona sem Erla elskar, bauðst til að gefa sér nokkra slíka poka en Tinna er líka að fara að halda sýningu seinna í júní sem ber einnig nafnið Bland í Poka.

„Tinna Royal er sykurhúðaður engill í mannsmynd,“ segir Erla og bætir við að hún elski list og hönnun sem þorir líka að vera skemmtileg.

Nammi, nostalgía, skartgripir, íslensk hönnun, listamanna kærleikur og góðvild, hljómar alveg ótrúlega vel og ég verð eiginlega að eignast nammi-skartgripi þar sem bland í poka sjoppuferðirnar voru hápunktur æsku minnar!

mbl.is

#taktubetrimyndir