Var nauðgað af tveimur eldri mönnum

Kristín Þórsdóttir kynlífsmarkþjálfi.
Kristín Þórsdóttir kynlífsmarkþjálfi.

„Mig langar bara svolítið að grípa umræðuna sem er á lofti, í rauninni bara hvað er kynferðisofbeldi,“ segir Kristín Þórsdóttir kynlífsmarkþjálfi í morgunþættinum Ísland vaknar.

Kristín ræddi kynferðisofbeldi sem hún varð sjálf fyrir þegar hún var aðeins sextán ára gömul og þeim afleiðingum sem það hafði á hana í kjölfarið af því að ný #metoo bylting er hafin.

„Það eru svo margar, sérstaklega konur í samfélaginu í dag búnar að triggerast út af öllu umtali sem er í gangi og það er mikilvægt að ræða hlutina og mikilvægt að leita sér aðstoðar. Ég segi bara fyrir mitt leiti, það var brotið á mér þegar ég var 16 ára og ég sagði engum frá. Mér var sem sagt nauðgað af tveimur eldri mönnum og annar sem ég þekkti, ég fór heim með honum sko,“ útskýrir Kristín.

„Hvernig kom ég mér í þessar aðstæður?“

Hún segir að umræðan snúist svo oft út í það að fyrst manneskja hafi ákveðið að fara heim með einhverjum eða klætt sig á ákveðin hátt að þá sé það henni sjálfri að kenna hvernig hafi farið.

„Eins og í mínu tilfelli ég er sextán ára unglingur og þarna er eldri maður og þetta er ekki mér að kenna og maður áttar sig ekki á því fyrr en löngu eftir á. Af því að mín viðbrögð voru, sem kom svo í ljós eftir að ég fór í viðtal á Stígamótum, að oftast eru viðbrögðin eða í fleiri en helmingi tilfella eru viðbrögðin þau að frjósa þegar þú verður fyrir ofbeldi, lamast. Þú færð svo mikið sjokk, að þú lamast og ert bara; „Hvernig kom ég mér í þessar aðstæður?“ Og mínar hugsanir voru bara, djöfulsins fáviti er ég. Hvernig gat ég komið mér í þessar aðstæður. Hvað á ég að gera? Og ég bara fraus og lamaðist og gat ekkert á meðan þeir tveir luku sér af. Og ég sagði engum frá því ég kenndi mér um þetta. Ég var fávitinn og ég var fíflið og ég fór í svona sjálfsskaðandi hegðun í kjölfarið af því og það var ekki fyrr en ég var 24 ára sem ég segi eitthvað af því að sálfræðingur spyr mig; „Hefurðu orðið fyrir kynferðisofbeldi?“ Og ég bara, nei alls ekki,“ segir Kristín.

Fannst þetta vera henni sjálfri að kenna

Átta ár liðu frá því að Kristín varð fyrir ofbeldinu og þar til hún fór að vinna með það.

„Mér fannst þetta vera mér að kenna, ég var fávitinn af því að ég fór heim til hans. En ég reyndi að hlaupa út, ég reyndi að komast í burtu og leið og hann sagði; „Þú ert ekki að fara neitt,“ þá lamaðist ég. Það er svo mikilvægt að tala um þetta. Af því að í bíómyndunum þegar fólk verður fyrir ofbeldi þá er alltaf; „Ég er að hlaupa í burtu, ég er að forða mér, koma mér í burtu.“ En oft á tíðum þá bara lamast þú,“ segir hún.

Mörgum árum síðar þegar sálfræðingur Kristínar spyr hana hvort það sé ekkert atvik sem láti henni líða illa í maganum svarar Kristín fyrst játandi og fékk þá staðfestingu á því að hún hafi orðið fyrir ofbeldi.

„Ég segi jú þarna þegar ég var 16 ára, þegar ég var fáviti. Og hann biður mig að segja sér frá því og ég ætla ekki að fara út í lýsingar hérna. En hann segir; „Þetta var nauðgun.“ Og ég alveg ha? Og það útskýrir svo margt. Ef ég hefði sagt einhverjum fullorðnum í kringum mig frá þessu atviki hefði viðkomandi sagt strax; „Þetta er ofbeldi, þú varðst fyrir ofbeldi þú þarft að leita þér aðstoðar.“ En í staðin fór ég út í það að deyfa mig með áfengi, bar enga virðingu fyrir sjálfri mér, mér fannst ég bara vera rusl,“ segir hún.

Alltaf þeim sem brýtur á þér að kenna

Kristín segir að henni þyki ótrúlega mikilvægt að fólk viti að það sé aldrei of seint að vinna sig út úr svona hlutum.

„Þetta er aldrei, aldrei þér að kenna, þetta er alltaf þeim sem brýtur á þér að kenna. Þótt þú klæðir þig í flegið eða stutt pils. Og líka þótt þú farir og byrjir að stunda, og þetta er það sem ég segi rosa mikið við unglinga þegar ég er a halda forvarnarfræðslu af því að ég er að tala um mína reynslu, að þótt þú sért komin með manneskju, þið eruð komin hérna tvö og búin að ákveða að þið ætlið að stunda kynlíf saman. Þið byrjið og þú færð bara ótrúlega slæma tilfinningu og þú ert ekki til í þetta. Þú mátt segja stopp ég er ekki til og ef það er ekki virt þá er þetta orðið ofbeldi,“ útskýrir Kristín.

Mikilvægt að fá alltaf samþykki

Kristín segir það mjög mikilvægt að byrja að fræða krakka sem yngsta. Að ræða við þau um samskipti og mörk og útskýra fyrir þeim að það sem sé í gangi í klámmyndum sé ekki í gangi í alvörunni.

„Líka bara að fá alltaf samþykki, að vera ekki með manneskju sem getur varla sagt nafnið sitt af því að hún eða hann eru of drukkin. Að vera ekki að notfæra sér aðstæður þar sem þú veist að þú ert ekki að fá samþykki. Þú verður að fá samþykki áður en þú ferð að stunda kynlíf,“ segir hún.

Ofbeldismaðurinn like-aði hana á Tinder

Hún segir að allir geti unnið sig úr því ofbeldi sem þau hafi orðið fyrir en að oft þurfi lítil til þess að triggera fólk aftur.

„Eins og það sem gerðist hjá mér er að ég fer á Tinder í mánuð. Og ofbeldismaðurinn minn like-ar mig á Tinder. Þetta var klukkan ellefu um kvöldið og ég bara. Hann var að like-a mig á Tinder, þetta er örugglega bara bull hann nauðgaði mér pott þétt ekki. Þú myndir aldrei like-a mig á Tinder. Ég fór að efast, en ég fór inn á bað og ég ældi og ældi og svaf ekkert alla nóttina og grét og grét og bara hvað er í gangi. Það var ekki fyrr en þá sem ég fór til Stígamóta og ég sagði bara kannski var þetta bara bull í mér, þú veist hver fer að like-a manneskju sem þú hefur beitt ofbeldi og þetta var örugglega mér að kenna. Ég fór bara aftur í þessa skömm og hún sagði; „Líkaminn lýgur aldrei. Ef þetta eru viðbrögð líkamans, ef þetta er óttinn þá var brotið á þér.“ En það er svo magnað hvað maður fer að efast,“ segir hún.

Aðspurð að því hvort hún hafi ekki ákveðið að kæra mennina sem brutu á henni svarar Kristín því neitandi.

„Ég fæ alltaf þessa spurningu frá unglingum og ég segi bara nei, af því að réttarkerfið hérna á Íslandi er svo galið. Þetta er eitthvað sem ég komst að 8 árum síðar að þetta hefði verið ofbeldi. Ég var allan tímann að burðast með þessa skömm, þessar ásakanir og þessa vanlíðan en réttarkerfið er þannig að ég veit ekki hversu fáir actually fá dóm,“ segir Kristín.

Nýtir reynslu sína sem forvarnarfræðslu

Kristín segist reyna að nýta reynslu sína sem forvarnarfræðslu í dag og segir hún mikilvægast af öllu að umræðan um kynlíf, mörk og samþykki sé mikilvægust.

„Tala um mikilvægi þess að fá samþykki í kynlífi og líka að sjá, ef þú ert að stunda kynlíf með manneskju og manneskja liggur algjörlega eins og hún sé bara lömuð undir þér þá er eitthvað að. Þá þarf að stoppa og spyrja; „Hey er allt í góðu?“ Maður þarf að geta lesið aðstæður,“ útskýrir hún.

Þá segir Kristín mikilvægt að auka kynfræðslu barna og að skynsamlegt væri að byrja að ræða svona hluti við þau mun fyrr en nú þegar sé gert.

„Við höldum alltaf að börnin okkar séu ekkert að pæla í hlutum, séu svo ung og allskonar. Ég heyrði það bara um daginn að það var átta ára strákur sem var að skoða klám af því að einhver eldri bróðir einhvers sagði honum að kíkja á það. Það þarf að byrja snemma að fræða og líka bara bera virðingu, samskipti og bara byrja nógu snemma að tala um þetta. Við þurfum að tala um það sem er vont og erfitt. Því maður man það alltaf,“ segir hún.

Viðtalið við Kristínu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir