Gerist ekkert fyrr en karlarnir lenda í því

Blaðamaðurinn Árni Matt.
Blaðamaðurinn Árni Matt.

Undanfarið hefur mikið verið fjallað um hatursorðræðu á netinu eftir að Tusse, sænski eurovisionflytjandinn, varð fyrir barðinu á henni í kjölfar fyrstu æfingu hans á sviðinu í Rotterdam.

Þeir Logi Bergmann og Siggi Gunnars fengu Árna Matt til sín og ræddu við hann um málið og veltu því fyrir sér hvað væri hægt að gera.

„Þetta er náttúrlega mjög mikið vandamál að bregðast við og eiginlega ógerningur að bregðast við. Og það er ekki bara þetta heldur líka til dæmis hafa menn verið mjög æstir í Bretlandi af því að það er verið að ráðast svo mikið á þeldökka knattspyrnumenn þar. Ef þeir gera eitthvað af sér, klúðra einhverju, skora ekki mark í dauðafæri þá ryðjast menn fram og alveg hrauna yfir þá út frá rasískum forsendum. Ekki það að þú sért bara lélegur í fótbolta með ónýta vinstri löppina eða eitthvað svoleiðis heldur bara; nei, þú ert svartur, þú ert aumingi,“ segir Árni.

Konur hafi mætt hatursorðræðu í mörg ár

Árni segir vandamálið vera vaxandi en viðurkennir að það sem er forvitnilegast í því sé að fyrst núna séu menn að bregðast við vegna þess að karlmenn eru að verða fyrir þessu.

„Það sem hefur mætt konum á netinu frá því bara að fokking samfélagsmiðlar voru fundnir upp, í fjölda ára, er að það rignir yfir þær svívirðingum og líflátshótunum og nauðgunarhótunum og ég veit ekki hvað og hvað og sko kona sem segir: „Já ókei, það er nýr peningaseðill í Bretlandi, kannski við ættum að hafa konu á honum í fyrsta sinn.“ Í fyrsta fokking sinn. Það varð allt brjálað og hún varð að loka hjá sér twitterreikningnum  af því að það kom svo mikið af svívirðingum og lífláts- og nauðgunarhótunum. Þannig að eins og ég segi: Mér finnst það svolítið fyndið, þótt það sé ekki fyndið beinlínis, að núna þegar allir eru að segja já, við verðum að gera eitthvað, það er vegna þess að karlarnir eru að lenda í þessu. Þá verðum við að bregðast við,“ segir Árni.

Í þættinum útskýrir Árni hvers vegna það er jafn erfitt og raun ber vitni að sía út og banna slíka orðræðu á netinu ásamt því að fara nánar í hatursorðræðu gagnvart konum í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is

#taktubetrimyndir