Nakin með vinnumenn í garðinum

Camilla Rut.
Camilla Rut.

Camilla Rut er í miklum framkvæmdum heima hjá sér þessa dagana og er þess vegna með mikið af verktökum fyrir utan hjá sér. Camilla viðurkennir að hún gleymi sér reglulega og eigi það til að ganga um nakin heima hjá sér þar til hún áttar sig á því að garðurinn er fullur af vinnumönnum.

„Við erum að taka alla lóðina í gegn og erum að græja pallinn fyrir sumarið. Við stefnum á að mögulega klára þetta í næsta mánuði. Eða við, ég er náttúrlega með verktaka,“ segir Camilla. Hún segist þó vera dugleg að gefa þeim vöfflur og kaffi.

„Ég reyni að halda mig við föstudagskaffið en ég var að vinna aðeins á föstudaginn. En svo mættu þeir bara á laugardaginn, þeir eru ekkert eðlilega duglegir og ég ákvað að henda bara í þá vöfflum og rjóma og sultu og svona, mig langar að þeim líði vel,“ segir hún.

Fylgjandi sem kom upp um hana

Aðspurð hvort hún hafi ekki áhyggjur af því að verktakarnir ílengist í verkinu vegna almennilegheita hennar hlær Camilla.

„Þið eruð að æsa, þið vitið alveg hvað ég er mikill „nudist“ og þið vitið alveg hvað þeir sjá inn um gluggann. Ég er búin að segja ykkur frá því,“ segir hún og bætir við: „Sko, þetta er annað skiptið okkar í svona framkvæmdum. Við sem sagt byrjuðum fyrir tveimur árum, þá vorum við að klæða húsið og sami verktaki kom og þeir planta alltaf svona gámi á lóðina okkar og eru bara þar að vinna og með sína aðstöðu og bara rosa fínt og allir vinna vel saman og allir bara rosa næs. En það er kannski ástæða fyrir því að þeir eru svona rosa næs við mig.“

Camilla segir að fylgjandi hennar á Instagram hafi í raun komið upp um hana þegar hún birti myndband af verktökunum á sínum tíma.

„Ég var á bak við sófann, ég svona beygði mig niður á bak við hann og tek eitthvað svona story: „Vá hvað það er falleg birta frá þessu sjónarhorni.“ Og þeir eru að vinna úti og ég tek svona story og set á Instagram þar sem þeir eru bara í vinnugöllunum úti og þetta var svona fallegt, myndrænt. Ég er náttúrlega bara gift kona sko. En þetta var rosa myndrænt og flott og ég set í story. Ég fæ skilaboð bara: „Ertu beygð niður á bak við stólinn“ ... „Já, já eiginlega.“ „Af hverju?“ „Ég sá þá bara allt í einu, ég fattaði að ég var náttúrlega bara ekki í neinum fötum,““ segir Camilla sem viðurkennir þó að hún sé ekki alveg nakin.

Gott að lofta um 

„Maður er bara að hafa sig til, maður er bara að klæða sig í og nennir ekkert að klæða sig í allt alveg strax og manni er heitt og maður er að slétta á sér hárið og maður er bara að vesenast,“ segir hún og viðurkennir að atvik sem þetta hafi komið fyrir oftar en einu sinni og oftar en tvisvar.

„Æi maður er bara að lifa lífinu lifandi. Er þetta svona mikið feimnismál, er þetta svona hræðilegt? Þetta er bara náttúran og við erum bara fólk og allir eru mannlegir og við erum öll með húð og beinagrind. Þetta er bara ákveðið frelsi sem fylgir þessu. Það er bara gott að lofta um og hafa þetta bara frjálst og þægilegt,“ segir hún.

Viðtalið við Camillu má hlusta á í heild sinni í spilaranum hér fyrir neðan:

 

mbl.is
Í loftinu núna
Endalaus tónlist

#taktubetrimyndir