Helga kenndi barre gengin tvo daga fram yfir

Unsplash/Alexandra Tran

Helga Guðný Theodors er þaulreyndur barre-kennari sem er nýflutt heim frá Kaliforníu. Nú í maí er hún að fara af stað með barre-leikfiminámskeið á Eiðistorgi og segir barre hafa gjörsamlega breytt lífi hennar. Ég fékk að spyrja hana aðeins út í þetta áhugaverða form hreyfingar.

Helga byrjaði í barre þegar hún var búsett í Oakland í Norður-Kaliforníu. Hún var dregin í sinn fyrsta tíma af vinkonu sinni og ætlaði sér í fyrstu ekkert að prófa þetta. Á þeim tíma var hún eiginlega alveg hætt að fara í hóptíma í leikfimi og grínast með að hafa „aerobikkað“ yfir sig á yngri árum. Hún fór því í tímann með engar væntingar – en segir þetta hafa gjörsamlega breytt lífi hennar. Eftir fyrsta tímann varð hún „hooked“, fór 28 sinnum á fyrsta mánuðinum og var orðin kennari rétt rúmlega ári síðar.

Helga Guðný Theodorsdóttir.
Helga Guðný Theodorsdóttir. Skjáskot/NunaCollective

Barre-æfingar eru gerðar við stöng en þó þarf engan dansgrunn til að geta tekið þátt. Spurð hvað tímarnir geri fyrir líkama og sál segir Helga að barre sé rosalega vel útpælt kerfi. Tímarnir eru erfiðir en það er passað vel upp á jafnvægi styrktaræfinga og stórra hreyfinga svo iðkendur fá alltaf þetta góða flæði í líkamann.

„Við vinnum með hinar ýmsu balletstöður þar sem markmið er lenging vöðva og jógastöður til að binda flæði hreyfinga saman ásamt því að gera góðar teygjur og styrktaræfingar með lóðum, böndum og boltum. Svo kemur "powerhouse"-kjarninn úr pilates inn í magaæfingarnar okkar. Við styðjumst við rétta stöðu líkamans, þar sem okkar meginundirstaða er ýmist hendur eða fætur, höldum liðum mjúkum og öruggum,“ segir Helga og heldur áfram:

„Ég hef aldrei verið eins sterk og eftir að ég byrjaði að gera barre, ég er eiginlega alveg viss um að ég hafi stækkað um nokkra sentimetra, tímarnir teygja svo úr manni! En það allra besta við þetta er að maður lærir að þekkja inn á líkamann sinn með góðri öndun, samþætti hugar og líkama og ekki er verra að það er alltaf dúndurgóð tónlist og skemmtilegur félagsskapur.“

Helga segir að barre sé fyrir alla og iðkendur vinna allir saman, bæði þeir sem eru að byrja og þeir sem eru lengra komnir. Því meira sem þú veist, því dýpra getur þú farið í stöðurnar.

„Sem kennari leiði ég tímana áfram og gef hugmyndir að því hvernig hægt er styðja betur við sig og/eða taka stöðuna lengra,“ segir Helga.

Ekki er unnið með sprengikraft og of mikið hopp og skopp. Samt sem áður eru þetta rosalega krefjandi tímar og góðir fyrir hjartað.

„Ég fór meiri að segja í gegnum tvær meðgöngur í barre og var enn að kenna þegar ég var komin tvo daga fram yfir settan dag á mínu síðasta barn. Þetta er svo frábært og öruggt kerfi – virkar fyrir alla!“ segir þessi öfluga og skemmtilega kona.

Helga kennir hádegisnámskeið í Hreyfingu á mánudögum og miðvikudögum og er núna að fara af stað með lítil 15 manna námskeið í listdansskólanum Óskandi á Eiðistorgi. Enn eru nokkur laus pláss í hádegisnámskeiðin á þriðjudögum og fimmtudögum á Eiðistorgi og ef einhver hefur áhuga á að prófa barre er þeim bent á að kíkja endilega á Nuna Collective en þar er hægt að skrá sig á námskeið, póstlista eða hafa samband ef einhverjar spurningar vakna. Ég held að ég verði bara að skella mér því ég er alltaf að leitast eftir því að verða sterkari!

mbl.is

#taktubetrimyndir