„Sleppir tökum á öllu og tekur á móti því sem kemur“

„Þegar þú mætir á dýnuna í fullri vitund og gerir …
„Þegar þú mætir á dýnuna í fullri vitund og gerir þitt besta til þess að halda athyglinni á djúpri neföndun allan tímann - þá gerast galdrarnir.“ Ljósmynd/Facebook-síða Skúla Braga

Skúli Bragason kláraði jógakennaranám í Taílandi um miðan maí í fyrra, í miðjum heimsfaraldri. Um leið og hann kom heim fór hann beint að starfa við jógakennslu og beindi athygli sinni meðal annars að karlajóga.

Fyrsta karlajóganámskeiðið hans var haldið í maí/júní í fyrra og hefur Skúli fengið flottar viðtökur síðan þá þar sem menn á öllum aldri hafa sótt námskeið hjá honum, sem hann segir mjög skemmtilegt. Ég fékk að spjalla aðeins við Skúla og forvitnast um karlajógað.

Skúli segist hafa vitað af því að margir karlmenn úti í samfélaginu væru orðnir svo stirðir að það væri farið að hamla þeim í daglegu lífi. Eftir að hafa fengið til sín ýmsa karlmenn í jóga segir hann það hafa reynst algjörlega rétt og rúmlega það.

Jóga er, eins og flestir vita, frábær leið til þess að auka liðleika og segir Skúli að þegar maður nær fram ákveðnum grunnliðleika geti það veitt manni meira frelsi í eigin líkama. Einnig getur jógað hjálpað þér að losa um spennu í líkamanum og oft á tíðum einnig tilfinningaspennu, líka þá sem þú varst ekki einu sinni meðvitaður um.

Hann segir að þó svo að ástæðan hjá flestum sem sækja námskeið sé sú að þeir séu orðnir of stirðir komist þeir fljótt að því að það er meiri ávinningur að baki jóga en einungis liðleiki.

„Þegar þú mætir á dýnuna í fullri vitund og gerir þitt besta til þess að halda athyglinni á djúpri neföndun allan tímann  þá verða galdrarnir. Ég vil lýsa jóga sem „moving meditation“ en það er þetta flæðisástand sem er djúsinn í þessu. Rúsínan í pylsuendanum er síðan slökunin í lokin, þar sem þú sleppir tökum á öllu og tekur á móti því sem kemur.“

Skúli segir góðar ástæður fyrir því að hann mæli með því fyrir karla að prufa jóga. Meðal annars að öðlast meiri tengingu við eigin líkama, öðlast liðleika að því marki að stirðleiki hamli þér ekki í daglegu amstri og losa líkamann við þá spennu sem í honum liggur.

Enn fremur að kynnast þeim andlega ávinningi sem jóga hefur í för með sér og gefa sér rými til þess að slaka á  og njóta! Skúli heldur karlajóganámskeið reglulega og ég mæli eindregið með því fyrir alla karl-flóruna að fylgjast með þessu og taka jóganu opnum örmum.

mbl.is

#taktubetrimyndir