Litrík skilaboð frá fimm ára stúlku

Eilidh hefur ekki langt að sækja listræna hæfileika sína þar …
Eilidh hefur ekki langt að sækja listræna hæfileika sína þar sem móðir hennar er listakona. Ljósmynd/SWNS

Fimm ára gömul stúlka að nafni Eilidh hefur slegið í gegn í hverfi sínu fyrir litrík listaverk sem hún teiknar á bílskúrshurðina heima hjá sér.

Eilidh og fjölskylda hennar eru búsett í Skotlandi og hefur þessi fimm ára listakona fengið frjálsar hendur í sköpunargleði sinni. Samkvæmt Goodnewsnetwork hefur Eilidh tvisvar í viku síðastliðið ár teiknað nýtt listaverk á bílskúrshurðina.

Þetta hefur létt lundina hjá nágrönnum hennar þar sem myndirnar búa yfir mikilli gleði og skilaboðum um von á krefjandi tímum. Skærir litir, höfrungar, hafmeyjur, kóngulóarmaðurinn, risaeðlur, regnbogar, blóm og allt þar á milli bjóða gangandi vegfarendum inn í ævintýraheim fyrir utan heimili fjölskyldunnar og eru ímyndunarafli Eilidh engin takmörk sett.

Ljósmynd/SWNS

Eilidh á ekki langt að sækja listræna hæfileika sína þar sem móðir hennar er listakona og hefur verið dóttur sinni innan handar ef hún þarf einhverja aðstoð. Fólk sem gengur framhjá hefur oftar en ekki staldrað við, spurt út í listaverkin og dáðst að þeim. Eilidh á hóp aðdáenda sem skilja stundum súkkulaðikassa eftir fyrir utan dyrnar hjá henni í þakklætisskyni fyrir þá gleði sem list hennar veitir þeim.

Móðir Eilidh segir dóttur sína teikna utan dyra í von um að gleðja aðra. Þrátt fyrir að litla listakonan hafi slasast í fyrra og brotnað á hægri hendi stoppaði það hana ekki af þar sem hún lærði hægt og rólega bæði að teikna og skrifa með þeirri vinstri. Sannkallað ofurkrútt og listakona sem lætur ekkert stoppa sig við að dreifa gleðinni!

mbl.is

#taktubetrimyndir